133. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2006.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

330. mál
[10:12]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Hér eru greidd atkvæði um að taka upp 300 þús. kr. frítekjumark vegna atvinnutekna (ÖS: Stattu nú við stóru orðin.) fyrir bæði ellilífeyrisþega og örorkulífeyrisþega. (ÖS: Stattu við stóru orðin.) Ég vek líka athygli á því að hér er jafnframt gefinn kostur á því að lífeyrisþegar velji á milli 300 þús. kr. frítekjumarks og 60% af atvinnutekjum til tekna.

Þetta er stórkostleg réttarbót eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson gat um áðan (ÖS: Stattu við stóru orðin.) en hv. þingmaður, eins og aðrir þingmenn stjórnarandstöðunnar, treystir sér ekki til þess að greiða þessari réttarbót atkvæði. Hvað mundi nú gerast ef allir hv. þingmenn hér í salnum tækju sömu afstöðu og hv. þm. Össur Skarphéðinsson? (Gripið fram í.) Þá yrði engin réttarbót, (Gripið fram í.) hæstv. forseti. Það er skömm að því fyrir hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar að koma svona fram gagnvart elli- og örorkulífeyrisþegum. (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Heyr, heyr!)