136. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2008.

kjararáð.

210. mál
[17:38]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja eins og er að ég er ekki mjög hlynntur því hvernig þetta mál er borið upp og tel að það sé hálfgert klúður að bera það upp með þeim hætti sem hér er gert. Það væri miklu nær, hæstv. forseti, að taka það fyrir sem umræðuefni máls að þingmenn sjálfir ákveði að lækka laun og fari í gegnum umræðu með hvaða hætti það eigi að vera. Ríkisstjórnin hefur komið með tillögu um að launalækkanir verði á bilinu 5–15%. Ég veit ekki alveg hvernig það er hugsað en geri ráð fyrir því að það sé einhvern veginn út frá upphæð launa.

Ég hef oft sagt í þessum ræðustól að mér hafi fundist skorta á að þingmenn þyrðu að ræða kjör sín eins og þau liggja fyrir opinskátt við þjóðina og án einhverrar tímapressu rétt fyrir jól eða rétt fyrir þinglok þegar verið er að fjalla um eitthvað sem snýr að kjörum þingmanna, hvort sem það eru eftirlaunamál eða annað.

Við eigum að ræða það algerlega opið hver laun okkar eru og fara í gegnum þá umræðu og ef ríkisstjórnin vill beita sér fyrir því að við tökum á okkur launalækkun þá eigum við bara að gera það með frumvarpi um að Alþingi ákveði að lækka launin. Það er okkar verk að fjalla um það og ræða slíkan texta og fjalla svo um það í viðkomandi nefnd og koma með tillögur kjararáðs að öðru leyti. Og að þeim tíma liðnum sem lögin taka til mundi kjararáð meta hvort tilefni væri til launahækkunar að nýju eða ekki. Af sjálfu leiðir, vegna þess hvernig lögin um kjararáð eru, að verði ekki eftirfylgni eins og hæstv. ráðherra lýsti í máli sínu meðal annarra sem taka laun í hæstu launaflokkum opinberra embættismanna, þá mundi kjararáð samkvæmt lögunum þurfa að endurmeta stöðuna eftir eitt ár. Hafi ekkert gengið eftir af því sem ríkisstjórnin ætlaði sér í sambandi við launakjör annarra embættismanna en ráðherra og alþingismanna þá mundi kjararáð samkvæmt lögunum væntanlega hækka launin aftur.

Við fórum fyrir ekki löngu síðan yfir lögin um kjararáð og breyttum þar ákveðnum viðmiðunum, m.a. til að taka mið af launaþróun á almennum vinnumarkaði o.s.frv. Það er ekki langt síðan við breyttum þessum lögum og var það gert til þess að laun alþingismanna endurspegluðu betur það sem gerðist á almennum vinnumarkaði.

Það er einfaldlega ábending mín, hæstv. forseti, að Alþingi geri þetta sjálft, að lögunum um kjararáð verði ekki breytt heldur ákveði Alþingi að lækka laun miðað við ákveðnar upphæðir sem menn hafa í launapakka sínum og leggi til prósentur eða krónutölur eftir atvikum. Það er þess vegna hægt að taka mið af þeim prósentutölum sem ríkisstjórnin leggur hér til, 5–15% ef menn vilja svo viðhafa.

Ég tel að alþingismenn eigi sjálfir að fara yfir þetta mál og samþykkja þau lög sem þeir telja hægt að vinna eftir og leiði til þess að fram komi ákveðin launalækkun sem væntanlega yrði þá fylgt eftir annars staðar, m.a. hjá kjararáði sem á þá taka mið af þeirri launaþróun sem verður á markaði. Þá reynir auðvitað á það hvort ríkisstjórnin nær því fram í samningum og viðræðum við aðra sem eru í hærri launaþrepum á vegum ríkisins að það gangi eftir að lækka laun æðstu embættismanna og annarra sem hafa laun yfir þeim mörkum sem væntanlega yrðu sett um þær viðmiðanir sem alþingismenn mundu setja um launalækkunina.

Ég tel einnig að í slíkri ákvörðun ætti að fylgja að Alþingi mundi ákveða launalækkun forseta Íslands. Það á ekkert að skilja hann eftir í þeim pakka ef slík lög verða sett og það sé bara afgreitt um leið.

Hitt vil ég benda á, hæstv. forseti, að það eru auðvitað tvær aðferðir við að ná niður raunlaunakostnaði ríkisins. Önnur aðferðin liggur í því að lækka laun. Hin aðferðin liggur í því að hækka skatta, því að við erum væntanlega að tala um raunlaunakostnað ríkisins, það hlýtur að vera það sem skiptir máli og raunlaunasamanburður í þjóðfélaginu.

Við upphaf síðustu kjarasamningalotu ASÍ komu fram áherslur í þá veru, sem voru reyndar mjög svipaðar og samstofna þeim áherslum sem Frjálslyndi flokkurinn lagði með sér í umræðuna fyrir síðustu alþingiskosningar, að hafa sérstakan persónuafslátt fyrir þá sem væru með laun undir 150 þús. kr. þannig að menn greiddu ekki skatt af þeim launum. Síðan þynntist sá persónuafsláttur út upp eftir launastiganum og þessi sérstaki persónuafsláttur yrði svo horfinn samkvæmt tillögum ASÍ við 300 þús. kr. mörk eins og þá var viðmiðunin og menn settu fram í kjarasamningum. Ríkisstjórnin féllst ekki á þetta. Ríkisstjórnin féllst ekki á þá tillögu að þeir sem hefðu hærri tekjur greiddu meira til ríkisins og legðu meira til af sínum brúttólaunum inn í raunlaunastefnu ríkisins með því að greiða meira til baka í sköttum.

Ríkisstjórnin hefur gert annað, þ.e. sérstaklega Sjálfstæðisflokkurinn. Sá flokkur hafði það sem sérstakt stefnumál í skattamálum að afnema hátekjuskattinn á sínum tíma í stað þess að hækka frekar tekjuviðmiðið í hátekjuskattinum og skatturinn væri til staðar þess vegna í tveimur þrepum eða þremur og næði til hærri tekna og sérstaklega þeirra tekna sem iðulega hefur verið talað um í þjóðfélaginu sem ofurlaun undanfarin ár og missiri. Það var forgangsröðun sjálfstæðismanna að afnema skatta af háum tekjum og ofurlaunum, svokallaðan hátekjuskatt sem var hér við lýði.

En við erum væntanlega að tala um rauntekjur og rauntekjukostnað ríkisins, að ná honum niður. Vissulega mun ekkert af því veita að ná niður kostnaði ríkissjóðs með þeim ráðum sem tiltæk eru eða þá að ná inn tekjum. Og í því tilviki þegar um er að ræða opinbera starfsmenn þá kemur það alveg út á eitt, ef menn ætla að ná einhverri niðurstöðutölu í launakostnað hæst launuðu manna á vegum ríkisins, opinberra starfsmanna, alþingismanna eða ráðherra, hvort menn fara þá leið að lækka launin í prósentum eða að hátekjuskattsþrepinu hefði verið haldið og það fært út í prósentum eftir því sem tekjurnar voru hærri. Það er væntanlega verið að leggja það til hér með mismunandi prósentu, að nota slíka hugsun að lækka mest launin hjá þeim sem hæstar hafa tekjurnar. Við hefðum alveg eins getað sagt og verið að skoða hér tillögu um að setja 15% hátekjuskatt á þá sem eru með hæstu launin sem lækkaði svo niður í 5% hjá þeim sem neðstir væru í stiganum áður en hátekjuskatturinn félli út.

En Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki dug í sér til að koma með tillögu um þetta vegna þess að hann beitti sér fyrir því að hátekjuskatturinn var felldur út, barðist alveg sérstaklega fyrir því í síðustu ríkisstjórn að ná honum út. Og ég þykist vita það beint innan úr Framsóknarflokknum, eftir viðræður við suma sem ég hef rætt við þar, að það var ekki sérstakt áhugamál framsóknarmanna að leggja af hátekjuskattinn á sínum tíma þó að þeir hafi látið það eftir Sjálfstæðisflokknum að fara í þá vegferð.

Það er nú svo að yfirleitt er hægt að ná þessum markmiðum sem menn ætla sér hér með tvennu móti. Annars vegar að skera niður laun og hins vegar með því að taka skatt af háum tekjum til ríkisins og þá erum við væntanlega búin að setja raunlaunakostnaðinn á sama stað. Hvar gæti hátekjuskattur legið? Hann gæti vafalaust legið á bilinu 600–700 þús. kr. og þar yfir og þess vegna verið kominn upp í 15% þegar menn eru komnir í bankastjóralaun eða eitthvað slíkt eða ráðherralaun.

Ég bendi á, hæstv. forseti, að mér finnst tvennt koma til greina í þessari stöðu. Annars vegar að alþingismenn ákveði sjálfir þá launalækkun sem menn ætla að ná fram og það sé afgreitt á Alþingi með lögum og kjararáði ekki blandað í það með neinum hætti. Það yrði gert óvirkt að því er varðar laun þessara manna um komandi tíð. Og ef launin lækka leiðir af sjálfu sér að kjararáð mun taka mið af því þegar það fer að virka aftur í ákvörðunum sínum því að það hefur ákveðin viðmið eins og hefur komið fram hér í máli manna.

Hin leiðin er að afla ríkissjóði tekna á móti launagreiðslum með því að taka sérstakt hátekjuskattsþrep. Og þar sem við horfum nú fram á að fjárlög verða væntanlega afgreidd seint fyrir jól og það er alveg ljóst að þau verða afgreidd með gífurlega miklum halla þá er auðvitað verið að leita að því með logandi ljósi hvar hægt er að skera niður og eins hvar hægt er að afla tekna. Þar er kannski ekki um auðugan garð að gresja og ekki sé ég það fyrir mér að menn ætli að setja flata skattahækkun á alla launamenn í landinu í núverandi stöðu. Ég trúi því varla að slíkt verði gert hvorki á árinu 2009 né 2010. Menn hljóta því ef einhver heil brú er í þessari hugsun að horfa til þess að þeir geti borgað hærri skatta sem hæstar hafa tekjurnar. Ég trúi því ekki að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins ætli að keyra áfram skattastefnu sem byggir á því þeir sem hæstar hafa tekjurnar borgi minnstu raunskattana í þjóðfélaginu miðað við tekjur. En þannig er það í dag og hefur verið sýnt fram á það mörgum sinnum, hæstv. forseti. Þetta vildi ég láta koma fram hér. Ég tel að við alþingismenn eigum sjálfir að hafa manndóm í okkur til að fara í gegnum þetta mál og leggja það til sem okkur finnst sjálfsagt og eðlilegt varðandi launalækkun og gera það að lögum alveg óháð því hvernig lögin um kjaradóm. Þau skuli hins vegar tekin úr sambandi tímabundið sem af sjálfu leiðir með slíkum lögum hvort sem það yrði í eitt ár eða lengur.