137. löggjafarþing — 47. fundur,  24. júlí 2009.

Bankasýsla ríkisins.

124. mál
[13:53]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Fá verkefni standa hjarta mínu nær en það að hugsa vel um fatlaða en eftir sem áður deili ég þeirri hugsun sem ég held að sé ein grunnhugsun hjá þeim ágæta flokki sem hv. þingmaður stendur fyrir, að það er fátt mikilvægara en að koma bönkunum á fæturna til þess í raun og veru að tryggja að það fáist fjármagn til að fara að byggja upp atvinnulíf í landinu. Og ég held að ekkert sé eins mikilvægt og það að við eigum fjölbreytt og gott atvinnulíf því það er í raun og veru alger undirstaða þess velferðarkerfis sem m.a. þjónusta við fatlaða er. Ég lít þannig á að þetta sé tímabundið og ég vildi óska þess að við gætum nýtt fjármagnið á annan hátt en ég tel þetta verkefni vera það mikilvægt að við eigum að veita í það fjármagn sem við þurfum á sem faglegastan og bestan hátt til að koma bönkunum á fæturna.