138. löggjafarþing — 47. fundur,  16. des. 2009.

uppbygging dreifnáms og fjarnáms.

139. mál
[15:09]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir hennar svör. Ég held að það sé nú nokkuð skýrt að ráðherrann er að grípa til aðgerða innan ráðuneytisins sem kannski hefði átt að vera búið að fyrir löngu, að kortleggja fjar- og dreifnám í skólum landsins og gæðin í námsframboðinu. Ég held að það endurspegli kannski þekkingarleysi, eða á ég að segja áhugaleysi, á þessari tegund af námi að það skuli hafa dregist svona að fá svör við þessum spurningum. Ég þykist nefnilega nokkuð viss um það að ef þessar upplýsingar hefðu legið á borðinu hjá starfsmönnum ráðuneytisins hefðu þeir verið löngu búnir að svara mér. Ég held að töfin á svörunum tengist því hreinlega að ekki eru til upplýsingar um kostnaðinn. Þó að hægt sé að segja til um fjölda fjar- og dreifnema, aldursskiptingu og búsetu vantar upplýsingar um kostnað og síðan samanburð við staðnám.

Í grein í Morgunblaðinu segist Gísli Ragnarsson, skólameistari Fjölbrautaskólans við Ármúla, en sá skóli hefur staðið mjög framarlega í því að bjóða upp á þessa tegund af námi, sjá fram á það að þurfa að leggja niður sumar- og fjarnám vegna niðurskurðarins. Síðastliðið sumar hafi um 1.200 nemendur verið í sumar- og fjarnámi sem jafngildir 95 ársnemum. Skólameistarinn bendir á að í heildina hafi um 2.000 nemendur verið í fjarnámi og þar hafi mörgum og mismunandi hópum verið þjónað, m.a. atvinnulausum, og hæstv. ráðherra benti sjálf á hlutfall kvenna, og því sé slæmt að þurfa að skera niður. Hann segir, með leyfi forseta:

„Þetta er ódýrt námsúrræði sem kostar mun minna en dagskólinn.“

Þetta stemmir við þær upplýsingar sem ég hef frá öðrum skóla sem hefur verið mjög framarlega í uppbyggingu á dreif- og fjarnámi, sem er Borgarholtsskóli. Þar sjá þeir fram á að þurfa hugsanlega að leggja niður félagslega braut hjá sér en konur hafa einmitt verið í meiri hluta nemenda þar og þeir sjá fram á að geta ekki tekið nemendur fyrr en um áramótin. (Forseti hringir.) Það var bent á að ef þær þurfa að fara í staðnám verður það dýrara úrræði fyrir ríkið en það að bjóða áfram upp á þetta fjarnám.