138. löggjafarþing — 47. fundur,  16. des. 2009.

fundargerðir af fundum um Icesave-málið.

269. mál
[15:56]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Frú forseti. Enn kem ég í ræðustól undir þessum lið til að inna hæstv. ráðherra eftir upplýsingum vegna funda sem þeir hafa átt um Icesave-málið. Nú spyr ég hæstv. fjármálaráðherra í tveimur liðum um hvort til séu fleiri fundargerðir eða frásagnir af fundi samninganefndar Íslands með breskum og hollenskum viðsemjendum um Icesave eftir að Alþingi samþykkti lög um ríkisábyrgð 28. ágúst sl. Ég spyr að þessu einkum og sér í lagi vegna þess að í lögunum sem samþykkt voru 28. ágúst stendur, með leyfi forseta:

„Það er skilyrði fyrir veitingu ríkisábyrgðarinnar að breskum og hollenskum stjórnvöldum verði kynntir þeir fyrirvarar sem eru settir við ábyrgðina samkvæmt lögum þessum og að þau fallist á þá.“

Það er skýrt að hæstv. ráðherrar höfðu lagaskyldu til að kynna þessa fyrirvara fyrir Bretum og Hollendingum. Í gögnum málsins hefur verið gerð opinber ein fundargerð af fundi samninganefndar eða embættismanna úr íslenska stjórnkerfinu með Bretum og Hollendingum í Haag. Ljóst er þó að það voru fleiri fundir, miðað við þau orð sem hæstv. fjármálaráðherra hefur látið falla í ræðustól m.a. í andsvari við þá sem hér stendur. Því spyr ég hæstv. ráðherra hvort til séu fleiri frásagnir eða fundargerðir og ef svo er hvort það standi til að birta þær. Ef ekki eru til fundargerðir eða frásagnir af þessum fundum, af hverju voru þær þá ekki gerðar?

Í öðru lagi spyr ég hvort fyrir liggi fundargerðir af fundum ráðherrans um Icesave-málið með erlendum aðilum, t.d. funda sem hann átti í Istanbúl. Með sama hætti spyr ég hvort til standi að birta þær og af hverju þær eru ekki til, ef það er svarið.

Til að fyrirbyggja allan misskilning þannig að hæstv. ráðherra þurfi ekki að eyða tíma sínum í að bera af sér sakir ætla ég að taka fram að ég er ekki að saka hann um neitt. Ég er hreinlega að gera nákvæmlega það sama og hæstv. fjármálaráðherra, þá hv. þingmaður, gerði 17. nóvember 2008 þegar hann samkvæmt frétt á mbl.is krafðist upplýsinga og fór fram á til að mynda að öll skjöl yrðu gerð opinber. Þar nefndi hann sérstaklega fundargerð, minnisblöð eða nótur frá fundi Björgvins G. Sigurðssonar og fjármálaráðherra Breta á ákveðnum fundi. Ég er sannfærð um að hæstv. fjármálaráðherra hefur skilning á því að ég óska eftir upplýsingum til að ég geti sjálf metið stöðu þessa máls en ég er ekki með þessari fyrirspurn með neinum hætti að (Forseti hringir.) væna hæstv. ráðherra um eitt eða neitt.