139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

birting upplýsinga í ævisögu -- leiðrétting ummæla --samspil menntamála og atvinnumála o.fl.

[12:03]
Horfa

Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson (F):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni varðandi forgangsröðun í samgöngumálum, auðvitað eru umferðaröryggismálin mjög mikilvæg. Við verðum hins vegar einhvern tímann að taka ákvörðun um að klára þessa grunnuppbyggingu veganna á landinu en hitt er að sjálfsögðu mjög mikilvægt. Það er mjög mikilvægt að þetta sé klárað, þessir vegir eru ókeyrandi á sunnanverðum Vestfjörðum. Bestu vegirnir á landinu virðast vera þar sem undanfarnir samgönguráðherrar hafa búið. Ég tek sem dæmi Snæfellsnes, það er ákaflega gaman að keyra um allt Snæfellsnes, þar eru m.a. ný Vatnaleið og Kolgrafarfjörður. Svo getum við talað um Norðausturkjördæmi, kjördæmi fyrrverandi hæstv. ráðherra Kristjáns L. Möllers, þar sem eru komin Héðinsfjarðargöng og eru að koma Vaðlaheiðargöng. Þetta er ákaflega áhugavert þannig að ég hef velt fyrir mér hvort það sé nauðsynlegt fyrir framgang mála á Vestfjörðum, (Gripið fram í.) ef þessi hæstv. ríkisstjórn ætlar að tóra eitthvað hér áfram, (Gripið fram í: Nei.) að hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir verði sett yfir samgöngumálin.