141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

uppsagnir hjúkrunarfræðinga.

[15:04]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að það er grafalvarleg staða þegar 254 hjúkrunarfræðingar segja upp á Landspítalanum og það er jafnljóst að menn reka ekki Landspítalann án þessa fólks öðruvísi en að grundvallarbreytingar verði á rekstrinum. Við skulum vona að til þess komi ekki að uppsagnirnar taki gildi. Auðvitað eru búnar að eiga sér stað viðræður innan stofnunarinnar. Ég hef átt viðræður við stjórn Félags hjúkrunarfræðinga, að vísu fyrir nokkru síðan, þar sem vandinn var greindur í meginatriðum sem tvenns konar; annars vegar er mikil óánægja með launakjör þar sem stofnanasamningur hefur ekki verið gerður. Í gildi er kjarasamningur sem gildir til mars 2014, ef ég man rétt, og þess vegna hefur formaður Félags hjúkrunarfræðinga bent á að það sé skylda hvað það varðar. En kjarasamningi fylgir síðan stofnanasamningur þó að hann sé því miður ekki fjármagnaður þ.e. ekki eru settar prósentur, krónur eða aurar inn í hann.

Annað atriðið er að óskað hefur verið eftir því að fá breytingar á launum. Hjúkrunarfræðingar hafa barist fyrir því réttlætismáli að fá hærri laun þar sem velferðarstéttir, einkum kvennastéttir, eru verr launaðar en margar hefðbundnar karlastéttir. Hefur þar verið vitnað til ýmissa hópa, eins og komið hefur fram í viðræðum þessara aðila við þingflokka, og er launajafnrétti þar er undir. Þetta hvort tveggja er undir og í augnablikinu er spítalinn sjálfur að vinna í málunum ásamt fjármálaráðuneyti og velferðarráðuneyti til að kanna með hvaða hætti hægt er að liðka til í þessum efnum og hvað dugir, sem sagt hvað þarf til svo við getum tryggt að hjúkrunarfræðingar sjái sér fært og vilji vinna áfram á Landspítalanum.