141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[18:18]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Kostnaðurinn við að búa til 14% þrepið er minni háttar í ljósi þess að þetta þrep hefur áður verið til. Ég tel að kostnaðurinn við það sé í raun minni en af því að fara í svo stórt stökk eins og hafði áður verið rætt, úr 7% í 25,5%. Því tel ég þessa leið mun mildari, mun betri. Ég tel að ferðaþjónustan á allan hátt eigi vel að geta þolað þá breytingu að fara úr 7% í 14%.

Gistingin var í 14% og við erum náttúrlega ekki að tala um alla ferðaþjónustu. Þegar á heildina er litið eru skattskilyrði ferðaþjónustunnar býsna hagstæð hér á landi og ég held að gistiþjónustan eigi vel að geta þolað að fara úr 7% í 14%.