141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[20:42]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt athugað hjá hv. þingmanni að skattlagningarstefna ríkisstjórnarinnar hefur mikið gengið út á það, ef við notum bændamál, að ganga nærri mjólkurkúnni. Nú eru fyrningarnar búnar og alvaran tekin við.

Í dag var verið að segja upp fólki í sjávarútvegi suður með sjó, 27 manns sagt upp vegna þess að fyrirtækið ræður ekki við veiðigjöldin sem voru lögð á það. Við sáum þetta í heimabæ hv. þingmanns á Siglufirði fyrir viku. Þetta er sagan sem mun endurtaka sig í sjávarútveginum og í ferðaþjónustunni, það er verið að ganga af mjólkurkúnni dauðri. Það er góð regla að reyna að hafa skattstofnana sem breiðasta, reyna að fá sem mesta veltu og hafa skattprósentuna lága. Ef við hækkum skattprósentur upp í þær himinhæðir eins og nú er búið að gera göngum við af þessum atvinnugreinum dauðum, það er bara svo einfalt. Svarið við vangaveltum hv. þingmanns er: Þetta er hárrétt greining. Þessi skattpíning mun á endanum leiða til þess að störfum fækkar og í framtíðinni verða til minni verðmæti, skattstofnar dragast saman og lífskjör í landinu versna.