144. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[12:16]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Við í Bjartri framtíð erum að mörgu leyti spennt fyrir því að fara hugsanlega með virðisaukaskattskerfið í átt að einu þrepi. Mörg áhugaverð dæmi eru um slík skattkerfi en það eru líka til áhugaverð dæmi um virðisaukaskattskerfi sem eru með mörg þrep og virka vel, eins og í Lúxemborg. Þessi umræða er einfaldlega bara mjög skammt á veg komin og vinna við endurskoðun virðisaukaskattskerfisins er varla hafin. Þetta er allt gert bara einhvern veginn, skrifað aftan á umslag, ekki byggt á neinni greiningu eða skýrri stefnu. Ef við ætlum að fara í átt að einu þrepi í virðisaukaskatti liggur allt bótakerfið og skattkerfið undir í því hvernig við ætlum þá að mæta tekjulágum hópum. Hvernig ætlum við að gera það? Það vantar algjörlega í tillögurnar. Og varðandi bækur, þetta þýðir einfaldlega, út af samspili inn- og útskatts og skattprósenta, að bókaútgáfa mun núna þurfa að greiða (Forseti hringir.) tugi milljóna en greiddi áður ekki neitt í útgáfustarfsemi sinni. (Forseti hringir.) Það bitnar á myndskreyttum barnabókum til dæmis, dýrari útgáfu og öðru slíku. (Forseti hringir.) Þetta bitnar með beinum hætti á bókaútgáfu.