144. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[14:01]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Samþykkt á þessum lið leiðir til þess að hin fruntalega gildistaka styttingar atvinnuleysisbótatímabilsins á sér öll stað í einu lagi strax um áramótin í stað þess sem mun skárra hefði verið að stytta tímabilið um einn mánuði í senn. Það hefði komið sanngjarnar út gagnvart þeim hópum sem eru akkúrat á þeim tímamótum að vera að detta inn á seinni helming þriðja ársins á atvinnuleysisbótum. Þá hefði og verið til mikilla bóta ef gildistöku ákvæðisins í heild hefði verið frestað fram undir vor þannig að ástand á vinnumarkaði væri þá að batna borið saman við það sem er yfirleitt á dimmustu mánuðum ársins, útmánuðum. Ríkisstjórnin gerir þetta ekki bara einhliða og án samráðs við þá sem fyrir áhrifum verða af þessu, vinnumarkaðinn og sveitarfélögin, heldur gerir hún þetta eins fruntalega og hægt er með því að láta þetta allt taka gildi í einu lagi um áramótin, á erfiðasta tíma ársins.