145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

störf þingsins.

[10:57]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað til að ræða störf þingsins af því að ég hef áhyggjur af því hvernig meiri hluti fjárlaganefndar vinnur. Svo virðist sem forusta fjárlaganefndar trúi ekki forstjóra Landspítalans þegar hann segir að það vanti fé í rekstur spítalans. 30 milljónir voru settar í það að greina hvort það vantaði pening. Það var til peningur fyrir því sem sagt og hann fengu einhverjir ráðgjafar úti í bæ, eða hvað veit ég?

Hvernig væri að taka bara starfslið Landspítalans trúanlegt? Er það ekki skynsamlegra? Geta þá kannski þessar 30 milljónir farið í að byggja nýtt þak á Grensás sem er að hrynja? Er einhver smávísbending um að fé vanti þegar starfsfólk þar, á Landspítalanum, notar búnað eins og bleiur til að halda hreinlega þakinu uppi, til að taka á móti vatninu? Fólk er að forða sér undan því að þakið hrynji ofan á það.

Er það eitthvað sem þessir aðilar innan fjárlaganefndar, hv. þm. Vigdís Hauksdóttir o.fl., geta tekið trúanlegt eða þarf að athuga hvort sú frétt sé rétt?

Ég skil ekki þessa forgangsröðun. Ég vil sjá þessar 30 milljónir sem eiga að renna til ráðgjafa úti í bæ sem vantar kannski vinnu — við höfum séð hvaða ráðgjafar það eru, það eru hollvinir þeirra sem stjórna hér og það er efni í aðra umræðu. Getum við gert svo vel og sent þessar 30 milljónir beinustu leið inn á Grensás fyrir helgi af því að þakið er að hrynja?


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna