148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

barátta gegn fátækt.

[15:08]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir alla þessa fallegu upptalningu. Það var næstum því sem ég hefði sagt þetta sjálf, en það versta við það er að ekki eigi að gera neitt í málunum.

Mér er alveg nákvæmlega sama hvað við drögum marga fiska úr sjó þegar það virðist vera svigrúm til þess að lækka sérstakan bankaskatt, þegar er svigrúm til að byggja Hús íslenskra fræða, eða er kannski mögulegt að húsnæðislausir Íslendingar fái að vera þar þegar þeir eiga ekki í nein hús að venda? Það er ekki nóg að tala um hvernig við sköpum fjármagnið og hvernig við komum öllu áfram. Við verðum að setja það í ákveðinn forgang líka.

Við getum ekki einu sinni tekið persónuafslátt af þeim sem hafa ekkert með hann að gera, eins og af mér og fleirum, sennilega öllum sem hér sitja. Hvað höfum við sem erum hátekjufólk að gera með 53.850 kr. í persónuafslátt, á meðan við horfum á fátækt fólk fá útborgað allt niður í 200.000 kr., jafnvel þó að það sé með fjölskyldu? Það er ekki forgangsraðað rétt. Ég kalla eftir því að við tökum utan um fólkið sem þarf á hjálp okkar að halda. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)