148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[17:44]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Fyrst nokkrar almennar athugasemdir um þingsályktunartillöguna. Ég sakna yfirferðar um grunngildin sem lofað var vegna þess að þau vantaði í fjármálastefnuna. Það var tiltekið að betri útskýring kæmi á fjármálastefnunni þótt fjármálaáætlunin myndi uppfylla grunngildi um lög um opinber fjármál en ég sé ekkert um það.

Ég sakna þess að það eru engar kostnaðargreiningar á markmiðum og stefnu ríkisstjórnarinnar. Sá dálkur var í fyrri fjármálaáætlun, hann var þó frekar tómlegur þá og það er kannski ástæðan fyrir því að sá dálkur var tekinn út, en ég hefði frekar búist við því að reynt yrði að gera betur en ekki fjarlægja hann algjörlega. Mjög margar stefnur ríkisstjórnarinnar eru með orðunum „mæling ekki hafin“ eða „viðmið ekki skilgreind“. Það er dálítið merkilegt því að á hverju ári eiga ráðherrar að skila skýrslu til Alþingis um hvernig markmiðum hefur verið náð og ef mæling er ekki hafin eða viðmið ekki skilgreind er ekkert hægt að segja til um það hvernig markmiðum hefur verið náð. Þá er það hentugleikastarfsemi og bara tómur tékki þar sem hægt er að haga seglum eftir vindi.

Ég verð að gera stutta athugasemd um það hvernig við fengum fjármálaáætlunina í hendurnar. Það leit út fyrir að verða með góðum fyrirvara, að við hefðum fjármálaáætlunina í viku, gætum lesið í gegnum hana og kynnt okkur hana áður en kæmi til fyrri umr. Hins vegar fann ég villu, ég fann misræmi upp á 10 milljarða í greinargerðinni og tillögunni sjálfri. Ég vissi ekki hvort var rétt, ég hafði samband við fjármálaráðuneytið og einhvern veginn í kjölfarið fundust síðan fleiri villur sem hljóða sumar upp á hundruð milljóna króna í töflum í greinargerð, en okkur var ekki gerð nein grein fyrir því í hverju þessar frekari villur lægju. Það hefði verið mjög auðvelt að segja: Það eru villur hérna og hérna, þær verða lagaðar, það er hægt að lesa allt annað í fjármálaáætluninni og undirbúa sig eins og stóð til. Í staðinn þurftum við að eyða rosalega miklum tíma í að skoða nýju, uppfærðu og uppprentuðu fjármálaáætlunina þegar hún kom og bera hana saman við fjármálaáætlunina sem við fengum upprunalega til að sjá hvar villurnar lágu. Það fór rosalega mikill tími í það sem annars hefði verið hægt að nýta til að undirbúa sig fyrir þessa umræðu.

Ég ætla að fara aðeins yfir þá stefnu stjórnvalda sem á að vera mynduð í fjármálaáætluninni.

Markmið varðandi dómstóla er að aðgangur að þeim sé greiður, málsmeðferð skilvirk og réttlát, mannréttindi virt og að dómstólar njóti trausts. Hvað það markmið varðar vantar þá stöðu sem við höfum verið í árið 2017 en það er dálítið merkilegt að maður þarf bara að fletta aftur um eina blaðsíðu og þá getur maður lesið um fjölda nýskráðra mála á ári, fjölda rekinna mála í Hæstarétti og héraðsdómi og sakamál, munnleg einkamál og alls konar tölur um nákvæma stöðu 2017. Það er mjög undarlegt að þetta passi ekki saman, að þetta hafi ekki verið sett í markmiðið sjálft þegar blaðsíðu framar er hægt að fá upplýsingar um þetta.

Á málefnasviðinu um skatta-, eigna-, og fjármálaumsýslu á að hækka innheimtuhlutfall vegna tekjuskatts einstaklinga, tekjuskatts lögaðila og virðisaukaskatts um rúmlega 1 prósentustig. Mælikvarði ársins 2023 segir t.d. að innheimtuhlutfall tekjuskatts einstaklinga eigi að vera 87% og hækki úr 85,7%. Miðað við það hlutfall væru skatttekjur af tekjuskatti einstaklinga um 210 milljarðar en ekki 180 á þessu fjárlagaári ef það væri 100% innheimtuhlutfall, svona gróft reiknað. 30 milljarðar eru upphæð sem myndi nokkurn veginn duga til að hækka persónuafsláttinn um 27.000 kr., sem er það sem vantar upp á til þess að fylgja þróun, eða kannski bara byggja nýjan Landspítala.

Nýbyggingarnar eru nokkurn veginn á þessu róli. Hækkunin á innheimtuhlutfallinu upp í 87% gæfi þá tæpa 3 milljarða en til að byrja með verð ég að spyrja: Af hverju er þetta innheimtuhlutfall svona lágt? Ég hefði búist við því að það væri a.m.k. í 90 og eitthvað prósentum. Í öðru lagi: Hversu mikið af tekjuaukningunni í fjármálaáætluninni er áætluð vegna þessarar hækkunar á innheimtuhlutfallinu? Það skiptir dálítið miklu máli til að átta sig á því hversu mikilvægt þetta markmið er.

Annað markmið er að afskriftir minnki um 1 prósentustig, úr 1,85% niður í 0,8% sem hlutfall af heildarskatttekjum. Í endurskoðun ríkisreiknings frá 1996 var þetta hlutfall 3,5% og aðalástæðan sögð vera ofáætlanir á tekjum. Ég er ekki viss um að það eigi enn við í dag en það væri áhugavert að vita af hverju afskriftir eru samt svona háar, 1,85%. Miðað við fjárlög 2018 yrðu þá um 12 milljarðar afskrifaðir. Lægri afskriftir þýða þá rúmlega 6,5 milljarða aukatekjur. Ef þessi tvö markmið eiga að skila u.þ.b. 10 milljörðum tel ég að betur þurfi að útskýra hvað er í gangi.

Önnur markmið stjórnvalda á þessu málefnasviði eru áætlaðar tekjur af sérleyfum vegna hagnýtingar á landi, náttúru og auðlindum, að þær hækki úr einhverjum milljónum í upp undir milljarð. Ég veit ekki hvort veiðigjöldin eru í þessu viðmiði sem sérleyfi vegna auðlinda en viðmiðskostnaðurinn, næstum milljarður, ber með sér að svo sé ekki. Einnig á hlutfall af húsnæði í eigu ríkisins í markaðsleigu eða leigu byggðri á kostnaðargrunni að hækka úr tæpum 5% í 90% árið 2023. Það er áhugavert.

Í markmiðum um stjórnsýslu ríkisfjármála er áhugavert markmið. Þar á að vera heildstæð stefna fyrir öll málefnasvið. Staðan 2017 er að ekkert málefnasvið er með heildstæða stefnu. Ég velti því fyrir mér hver aðkoma þingsins eigi að vera í þessu ferli en í 20. gr. laga um opinber fjármál segir að ráðherra setji fram stefnu fyrir þau málefnasvið sem hann ber ábyrgð á. Ég tel að heildstæð stefna fyrir málefnasvið jafnist á við þingsályktun og eigi að hljóta jafngilda málsmeðferð í þinginu. Alþingi hlýtur að þurfa að koma að þeirri stefnusetningu sem framkvæmdarvaldið fylgir. Ég tel að það gangi ekki að heildstæð stefna fyrir öll málefnasvið fjárlaga sé sett í gegnum greinargerð í fjármálastefnu, -áætlun eða fjárlögum.

Í stefnu stjórnvalda í málefnasviði 8, um sveitarfélög og byggðamál, breytist framfærsluhlutfall ekki neins staðar á landinu. Framfærsluhlutfall er hlutfall 15–65 ára og þeirra sem eru utan þess aldurs. Nú hefur mikið verið fjallað um hvernig lýðfræðilegar breytingar hafa áhrif á málefnasvið aldraðra, að þeim fari ört fjölgandi, og til að ná þessu markmiði þurfa stjórnvöld annaðhvort að flytja inn fólk á aldrinum 15–65 ára eða senda aldraða eitthvað annað. Aðrir möguleikar eru ekki í boði því að það er augljóslega ósjálfbært að senda þá sem eru á aldrinum 0–14 ára eitthvað annað. Mér þætti gaman að vita hvorn möguleikann stjórnvöld ætla að velja og fá þá einhverja hugmynd um hver væri lágmarksfjöldi innflytjenda sem þarf til að ná þessu markmiði eða þá flytja aldraða út.

Varðandi háskólastigið er markmiðið að hlutfall kvenna meðal prófessora aukist úr 30% upp í 40%. Hér væri áhugavert að vita hversu margir prófessorar eru á bak við þessar tölur, hversu margir eru líklegir til að hætta á næstunni og hversu margar nýjar stöður eiga að verða til á næstu árum til að skoða hvert kynjahlutfall nýrra prófessora þarf að vera til að ná þessu markmiði. Einnig á að hækka hlutfall akademískra starfsmanna undir 40 ára úr rúmum 10% í 16%. Hvernig líta þær heildartölur út? Hvernig passar það saman við þessar breytingar á prófessorastöðunum?

Næst að sjúkrahúsþjónustu. Notkun fólks utan höfuðborgarsvæðisins á sérfræðiþjónustu var 36% árið 2016 samkvæmt fyrri fjármálaáætlun en staðan 2016 í núverandi fjármálaáætlun er hins vegar sögð vera 27,5% á sama mælikvarða. Af hverju er þessi munur á stöðunni á sama ári á milli áætlananna, þ.e. staðan 2016 í þessari fjármálaáætlun er önnur en staðan 2016 samkvæmt fyrri fjármálaáætlun? Hvernig stendur á því? Og hvað varð af byggingu legudeildar á Sjúkrahúsinu á Akureyri? Hún er í síðustu áætlun sem ákveðin aðgerð en hún er ekki í þessari áætlun. Hvað varð um hana?

Varðandi heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa á að lækka greiðsluhlutfall einstaklinga af heilbrigðiskostnaði úr 17,9% niður í 16,5% árið 2023. Það þýðir að kostnaðurinn á 1.000 kr. reikningi verður 165 kr. í staðinn fyrir 179 kr.

Komugjald á heilsugæslu er um 1.200 kr., miðað við það mun komugjaldið lækka niður í 1.106 kr. Tæpar 100 kr., gjörið svo vel. Ef kostnaðurinn er 12.000 kr. er sjúklingurinn kominn með þúsundkall í afslátt. Það er allt og sumt sem þetta stóra átak í lækkun á greiðsluhlutfalli þýðir.

Það á einnig að stytta viðbragðstíma bráðaútkalla þannig að 90% útkalla verði undir 20 mínútum, úr þessum 75% tilvika árið 2017. Það hlýtur að vera kostnaðarmetið, það bara hlýtur að vera, og ég get ekki ímyndað mér annað en að þetta verði dýrt. Mig langar að vita hvað það kostar eins og svo margt annað.

Nú er ég varla kominn hálfa leið með efnið en ég renni vonandi í gegnum afganginn af málefnasviðunum næst þannig að ég segi bara: Sitjið spennt í sætunum.