150. löggjafarþing — 47. fundur,  17. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[11:36]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka andsvarið kærlega en mig langar að árétta það að gagnrýni mín á breytingu á grunnskjalinu laut ekki að skiptingunni heldur að því að tólf mánuðirnir eru komnir inn í bráðabirgðaákvæði í grunnskjalinu. Það er það sem er verulega hættulegt skref og ég vara mjög við. Það gengur einfaldlega í berhögg við það sem Alþingi hefur verið að vinna að, ekki bara síðustu vikur og mánuði heldur undanfarin ár.

En varðandi þetta með skiptinguna og af hverju ekki var hægt að halda við fimm, fimm, tveimur fyrst verið var að búa til þetta bráðabirgðaákvæði. Hv. þingmaður vísar í að það hafi verið umsagnir sem lutu að gagnrýni á því þar sem ákveðnir aðilar vildu frekar þessa leið. En nú er það svo að það voru líka ákveðnir aðilar sem voru sáttir við fimm, fimm, tvo og maður skyldi ætla að í þeirri vinnu sem hefur átt sér stað og er undanfari þeirrar niðurstöðu sem menn komust að í frumvarpinu, fimm, fimm, tveir, væri þá með aðeins styrkari stoðir en það að stökkva yfir í fjóra, fjóra, fjóra.(Forseti hringir.)

Þannig að aftur spyr ég: Af hverju var ekki efni til að halda sig við fimm, fimm, tvo (Forseti hringir.) og gefa nefndinni og ráðherra færi á næsta ári til að vinna sig áfram í fjóra, fjóra, fjóra með meiri umræðu, (Forseti hringir.) af því að fimm, fimm, tveir er skiptingin sem hefur fengið umræðuna?