150. löggjafarþing — 47. fundur,  17. des. 2019.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

319. mál
[14:41]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Ég fagna því að þetta mál sé komið í höfn og ég þakka líka þeim sem undirbjuggu það. Málið er mjög vel undirbúið þó að ég geti alveg tekið undir að það hefði getað fengið lengri þinglegri meðferð. Það sem hefur samt vakið athygli mína í þessu ferli er hversu skýra sýn þeir hafa sem hafa staðið að þessu máli um hvernig hægt sé að minnka báknið, auðvelda og auka upplýsingagjöf, sameina krafta og gera húsnæðismálin öllsömul, bæði félagslega hlutann og svo mannvirkjahlutann, mun markvissari. Ég geri mér samt alveg grein fyrir því að það hvernig til tekst fer eftir því hvernig framkvæmdin verður þannig að nú er mikið undir hjá nýrri stofnun að vanda til verka og fylgja stefnu sinni og áætlunum.

Ég tel þetta mjög gott mál og að það sé liður í að fá báknið burt og gera kerfið skilvirkara.