150. löggjafarþing — 47. fundur,  17. des. 2019.

almennar íbúðir.

320. mál
[14:44]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna því mjög að við séum að greiða atkvæði um þetta frumvarp hérna líka. Það er tvíþætt, annars vegar lýtur það að því að efla stöðu landsbyggðarinnar innan almenna íbúðakerfisins og auka möguleika á því að geta byggt almennar íbúðir víðar en bara á höfuðborgarsvæðinu. Það er vel. Síðan erum við með hluti sem lúta beint að lífskjarasamningnum. Framlag stjórnvalda var m.a. til þess að hægt væri að ná farsælum kjarasamningum á almennum vinnumarkaði. Í því fólust mjög umfangsmiklar aðgerðir í húsnæðismálum og það er ánægjulegt að við sjáum þetta frumvarp hér . Síðan koma fleiri á nýju ári sem miða að því að fylgja þessum lífskjarasamningi eftir.

Ég get þó ekki orða bundist, það er sorglegt að sjá að stjórnarandstaðan á þingi er ekki tilbúin að fylgja þessum lífskjarasamningi eftir og það styrkir mig í þeirri skoðun að það sé öflug ríkisstjórn í landinu sem fylgir eftir lífskjarasamningnum með mjög fjölþættum aðgerðum. (Gripið fram í.) Þetta er eitt af þeim lykilmálum.