151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

horfur í ferðaþjónustu.

[10:31]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Það verður að segjast eins og er að skýr upplýsingagjöf verður seint talin einn af hornsteinum ríkisstjórnarinnar. Nú er ár liðið frá því að kórónuveirufaraldurinn fór að láta á sér kræla, faraldur sem hefur haft gríðarleg áhrif á stöðu þúsunda heimila og fyrirtækja. Róðurinn hefur verið þungur og nú liggur fyrir, að því er virðist, að sumarið verður ekki jafn bjart og vonir stóðu til, sérstaklega fyrir ferðaþjónustuna.

Viðreisn hefur lagt til ótal tillögur með það fyrir augum að auka fyrirsjáanleika til lengri tíma vegna þess að þetta er tímabundið ástand og það er mikilvægt fyrir landsmenn að fá skýr svör, að sjá fram úr kófinu. Samkvæmt bestu spá Samtaka ferðaþjónustunnar gera þau ráð fyrir um 600.000–700.000 ferðamönnum á árinu — samkvæmt bestu spá. Þeir voru 2 milljónir árið 2019. Þetta byggir á því að ytri landamæri Schengen opni fyrir vorið þannig að við getum tekið á móti ferðamönnum frá Bretlandi og Bandaríkjunum. Hér er mikil óvissa á ferð.

Samkvæmt forsvarsmönnum ferðaþjónustunnar fer viðspyrnukraftur greinarinnar þverrandi og næstu mánuðir geta hreinlega ráðið úrslitum um stöðu hennar á þessu ári, um fjölda fyrirtækja í þessari mikilvægu atvinnugrein. Fari svo að bólusetningar verði ekki klárar fyrir sumarbyrjun, hver eru skilaboð hæstv. ráðherra til ferðaþjónustufyrirtækja og til fyrirtækja í veitingahúsa- og öldurhúsarekstri? Hver eru skilaboð ríkisstjórnarinnar fyrir næstu mánuði út frá þeirri stöðu sem við stöndum frammi fyrir núna og hefur verið fyrirséð eða a.m.k. ástæða til að óttast um nokkurt skeið? Hvert er plan ríkisstjórnarinnar þegar kemur að rekstri þessara fyrirtækja og þeim raunhæfum væntingum sem þau geta haft til næstu mánaða?