151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

samningar um bóluefni.

[10:51]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Þannig að ég svari þessu varðandi ríkisstjórnina þá var það kynnt í ríkisstjórn að þessir samningar væru undir. Ég minnist þess ekki þar sem ég stend hér að þar hafi í upphafi verið rætt nákvæmlega um öll skilyrði, en þau hafa síðan a.m.k. smám saman verið að skýrast og hafa verið rædd í ríkisstjórn, já. Ég hef sömuleiðis skilið það þannig að ríkisstjórninni og okkur Íslendingum sé samkvæmt þessum samningum ekki fyrirmunað að leita til annarra framleiðenda sem mögulega kynnu að vilja bjóða fram bóluefni en eru ekki hluti af þeim fyrirtækjum sem eru í samningi við Evrópusambandið. Ég hef bæði fengið beint og óbeint upplýsingar um að margir séu að reyna að koma okkur Íslendingum í tengsl við slíka aðila og það sé til skoðunar.

Síðan erum við auðvitað enn með það samtal lifandi um möguleikann á einhvers konar rannsókn á Íslandi. Við eigum eftir að sjá hvað kemur út úr því. Þannig að ég held að það sé allt of snemmt að komast að þeirri niðurstöðu að það hafi verið mistök að fara í samflot með Evrópusambandinu, jafnvel þótt ég ætli ekki hér að fara að fella einhverja gæðaeinkunn á frammistöðu Evrópusambandsins samkvæmt þeim skuldbindingum sem sambandið tók á sig gagnvart okkur í þessu máli.