151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

nýsköpun og klasastefna.

[10:55]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn og er sammála henni og vísun hennar í að ríkið hafi klárlega hlutverki að gegna þegar kemur að uppbyggingu nýsköpunar og að tryggja að hvert samfélag geti sótt eins mikið fram og mögulegt er. Það er mikilvægt hlutverk og það er líka mjög vandmeðfarið. Það er mikilvægt að horfa á þá stóru mynd að við erum til að mynda með kerfi hér sem mér finnst styrkja nýsköpunarumhverfið mjög verulega, hvort sem það eru endurgreiðslukerfi varðandi rannsóknir og þróunarkostnað, Tækniþróunarsjóður, annar stuðningur og menntakerfið í heild sinni og allt það. Hins vegar þarf líka að athuga það að við leitum einhvern veginn öll í það hvort ríkið geti hjálpað frekar til. Ég held að við þurfum að vera mjög vakandi fyrir því að þegar ríkið gerir það þá skaðar það meira en það gagnast. Það á við almennt.

Varðandi klasavinnuna þá gengur sú vinna mjög vel og ég er mjög ánægð með hvernig hún er að þróast. Mér finnst þetta metnaðarfull sýn og þau sem eru í þeirri vinnu eru klárlega mjög hæf á sínu sviði og varðandi allt það sem er að gerast. Ég hlakka til að fá stefnuna í hendurnar og kynna hana. Sú nálgun gengur út á mikilvægi þessa samstarfs, eins og hv. þingmaður kom inn á. Það kann að vera að ríkið þurfi með einhverjum hætti að styðja við það. En mín skoðun er sú að það eigi að ekki vera efst á lista heldur neðar á lista að ríkið komi með sérstaka fjármuni til að styðja við slíka klasastarfsemi. Þeir öflugu klasar sem við höfum í dag eru að mjög litlu leyti með beinan fjárstuðning frá ríkinu.

Málefnasviðið er eins og það er (Forseti hringir.) og það er þá hlutverk mitt að forgangsraða og ég er algerlega tilbúin til að gera það. En hverjir fjármunirnir eru og með hvaða hætti liggur ekki fyrir fyrr en stefnan er klár.