151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

staða stjórnarskrármála.

[11:13]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir þessa sérstöku umræðu, sem eðli máls samkvæmt mun eingöngu snúast um hinar stóru línur sökum lítils tíma til umræðunnar. Hv. þingmaður nefndi hér sérstaklega vinnuna framan af kjörtímabilinu. Það liggur fyrir að snemma á þessu kjörtímabili var lagt upp með það að undir forystu minni yrði fundað með reglubundnum hætti með formönnum og fulltrúum þeirra flokka sem sæti eiga á Alþingi til að fjalla um tiltekin ákvæði í heild, við það verkefni að ráðast í heildarendurskoðun stjórnarskrár, sem yrði þá gert í áföngum og á tveimur kjörtímabilum. Ég tel að þetta vinnulag hafi gengið mjög vel, sérstaklega framan af áður en heimsfaraldur kórónuveiru skall á. Er það áberandi að í desember 2019 höfðu formenn fundað 18 sinnum um þessi mál, en alls urðu fundir 25 og var sá síðasti þeirra haldinn núna á mánudaginn á fjarfundi.

Þarna voru ákveðin atriði undir og má segja að strax frá byrjun hafi legið fyrir, og raunar öllum fullkunnugt sem fylgjast með pólitískri umræðu, að flókið yrði að ná fullkominni sátt um einstök ákvæði stjórnarskrárinnar. Það breytir því ekki að ég tel að þessi vinna hafi verið unnin af heilindum af öllum þeim sem að henni komu. Persónulega tel ég alla vega minn skilning á málefnum stjórnarskrárinnar og pólitískri umræðu um ólík ákvæði hennar hafa dýpkað við það að hlýða á sjónarmið þeirra sem sátu þessa fundi. Mér hafa fundist það vera mikilvæg sjónarmið.

Frumvarpinu sem ég hef boðað verður vonandi dreift á Alþingi síðar í dag, en það er enn í lokafrágangi. Af því að hv. þingmaður nefndi mikilvægi þess að vanda til verka þá get ég fullvissað hann um að það hefur sannarlega verið vandað til verka og sérfræðingar unnið mjög góða vinnu við þær tillögur sem við höfum verið að vinna að á kjörtímabilinu. Í þessu frumvarpi verða nokkur ákvæði; ákvæði um auðlindir í þjóðareign, ákvæði um umhverfis- og náttúruvernd, ákvæði um íslenska tungu og táknmál, sem og endurskoðun á II. kafla stjórnarskrárinnar, um forseta og framkvæmdarvald.

Hluti af uppleggi vinnunnar var að nýttar yrðu aðferðir almenningssamráðs. Var í þeim tilgangi efnt til samstarfs við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands og fræðimenn, bæði hérlenda og erlenda, um lýðræðislega stjórnarskrárgerð. Skoðanakönnun var framkvæmd og rökræðukönnun, sem byggði á þeirri skoðanakönnun, var haldin á haustmánuðum 2019. Ég tel að hluti af svona umræðu og niðurstöðum hennar skili sér inn í kaflann sem snýst um forseta og framkvæmdarvald, m.a. hvað varðar ákveðnar nýjungar um að hámark skuli sett á fjölda kjörtímabila forseta, að með raðaðri atkvæðagreiðslu sé unnt að tryggja að forseti njóti meiri hluta atkvæða, en ekki eru gerðar breytingar á valdheimildum forseta, enda ekki mikill vilji til þess ef marka má bæði niðurstöður skoðanakönnunar og rökræðukönnunar.

Ég hef ekki tök á því að fara djúpt í efnislega umræðu, eins og hv. þingmaður nefndi hér. En ég hef litið svo á að það sé mjög mikilvægt að við eigum hins vegar efnislega umræðu um breytingar á stjórnarskrá. Það liggur fyrir að í þeim áætlunum sem ég lagði til í upphafi eru ekki öll þau efni sem við höfum fjallað um á þessum fundum, til að mynda um framsal valdheimilda, þau skila sér ekki inn í þetta frumvarp. Var það mitt mat að þar þyrfti frekari umræðu til. Ég stefndi að því lengst af að við myndum ræða ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur í stjórnarskrá, en þar liggur líka fyrir að Feneyjanefndin, sem fékk ákvæðið til umfjöllunar á haustmánuðum 2020, gerði töluverðar athugasemdir við það ákvæði sem sent var henni til skoðunar. Og það sem flækir þá stöðu enn frekar eru að þær athugasemdir stangast fremur á við niðurstöður rökræðukönnunar sem ég vísaði í áðan. Ég tel því ljóst að það ákvæði þurfi frekari umræðu áður en það er lagt hér fram. Það er ekki tími til að fara í þetta efnislega en í stuttu máli má segja að Feneyjanefndin leggur áherslu á litla sem enga þröskulda í þjóðaratkvæðagreiðslum, en niðurstöður rökræðukönnunarinnar bentu til þess að fólk teldi mikilvægt að hafa ákveðnar takmarkanir á þjóðaratkvæðagreiðslum. Ég tel því að það þurfi frekari umræðu.

Ég tel að verkefni okkar hér inni sé að finna bestu mögulegu breytingar á stjórnarskrá. Ég tel ekki þetta verkefni snúist um það að hver og einn hafi það ákvæði sem honum finnst fullkomið, þá held ég að við myndum ekki ná fram neinum breytingum. En ég hef þá trú að það að fá að taka þessi mál til efnislegrar umræðu á þinginu, draga fram ólík sjónarmið sem mér finnst hafa tekist vel í hópi okkar formanna þótt fyrir lokuðum dyrum hafi verið, muni verða til þess að við þokumst fram á við. (Forseti hringir.) Það er mín sannfæring að þessi leið sé eina leiðin fram á við til að gera löngu tímabærar breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins.