151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

staða stjórnarskrármála.

[11:28]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Stjórnarskráin okkar er ekki meitluð í stein. Frá setningu stjórnarskrárinnar 1944 og til ársins 1999 voru gerðar breytingar á henni á fjögurra til sextán ára fresti, mismiklar en allar mikilvægar. Aldrei hefur jafn langur tími liðið á milli breytinga og nú og aldrei hefur ákallið í samfélaginu verið hærra. Auðvitað þarf að vanda vel til verka, en um margar af þeim breytingum sem kallað er eftir ríkir víðtæk sátt, t.d. um hlutverk og valdmörk forseta og skyldu þingsins. Það sama má segja um skýrt og afdráttarlaust auðlindaákvæði sem tryggir tímabindingu nýtingar og sanngjarna gjaldtöku fyrir afnot af auðlind þjóðarinnar. Um þetta ríkir sátt meðal þjóðarinnar þótt hún ríki ekki innan ríkisstjórnar Íslands. Stór hluti þjóðarinnar hefur lýst þeirri eindregnu skoðun sinni að breytinga sé þörf, að við þurfum auðlindaákvæði, líka að hlúa þurfi að náttúru landsins betur en gert er, og ekki síst að vægi atkvæða allra landsmanna skuli vera jafnt. Þetta er ákall frá þjóðinni sem ekki er ætlunin að svara. Og nýjustu vendingar þess efnis að hæstv. forsætisráðherra hyggist standa ein að frumvarpi um þær breytingar á stjórnarskránni sem þó eru lagðar fram, án meðflutnings formanna annarra ríkisstjórnarflokka, staðfesta þetta enn frekar. Hvað gera bændur þá?

Við hér á þingi erum málsvarar þjóðarinnar. Það er þess vegna sem ég er komin á þá skoðun að það færi betur á því að við samþykktum nýju stjórnarskrána eins og hún liggur fyrir. Þannig er hagsmunum þjóðarinnar, hagsmunum þeirra sem stjórnarskráin á að vinna fyrir, betur gætt (Forseti hringir.) en með tillögum ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur vegna þess að sú ríkisstjórn (Forseti hringir.) hefur sýnt að hún veldur ekki þessu verkefni.