151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

lögreglulög o.fl.

365. mál
[12:00]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi um breytingu á lögreglulögum, lögum um dómstóla, lögum um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem varða meðferð mála hjá nefnd um eftirlit með lögreglu, samvinnu lögreglu við innlend stjórnvöld, félagasamtök og einkaaðila, samvinnu lögreglu við erlend lögregluyfirvöld og alþjóðastofnanir. Einnig er lagt til að lögfesta starfsemi lögregluráðs, leggja niður hæfnisnefnd lögreglu ásamt minni háttar breytingum á hæfisskilyrðum lögreglustjóra, sýslumanna og héraðsdómara.

Fyrir um ári síðan var sérstakt lögregluráð sett á stofn. Þar eiga sæti allir lögreglustjórar, en ráðið er formlegur samráðsvettvangur lögreglustjóra sem byggist á því markmiði að efla samráð og tryggja hæfni lögreglunnar til að takast sameiginlega á við þær áskoranir sem uppi eru hverju sinni. Að starfrækja lögregluráð var fyrsti liðurinn í ákveðnum breytingum innan lögreglunnar og er lagt til að starfsemi ráðsins verði lögfest.

Síðastliðið vor fór jafnframt af stað greining á gildandi lagaumhverfi nefndar um eftirlit með lögreglu. Komu í ljós ýmis atriði sem kröfðust endurskoðunar. Alþingi samþykkti jafnframt þingsályktunartillögu þann 17. desember 2019 sem laut að því að efla eftirlit með störfum lögreglu. Til samræmis við þetta eru í frumvarpi þessu lagðar til ákveðnar breytingar á hlutverki og málsmeðferð nefndarinnar, m.a. með því að fela nefndinni að taka afstöðu til þeirra kvartana sem hún tekur til meðferðar, auk þess að gera störf nefndarinnar skilvirkari og stytta málsmeðferðartíma. Verður því nefndinni falið að komast að rökstuddri afstöðu til þeirrar háttsemi eða starfsaðferð sem kvartað er undan og ef tilefni er til skal hún senda viðeigandi embætti kvörtunina til frekari meðferðar.

Í þessu felst nánar tiltekið að þegar nefndin fær kvörtun til meðferðar skal hún sjálf taka afstöðu til þess hvort atvikið sem um ræðir samræmist lögum og viðurkenndu verklagi. Sæti athafnir lögreglu, aðfinnslum og/eða gagnrýni geti nefndin jafnframt beint almennum tilmælum til viðkomandi lögreglustjóra um mögulegar úrbætur, til að mynda um breytt verklag eða starfsaðferðir. Er hér um að ræða meginbreytingu á hlutverki nefndarinnar og er breytingin gerð til þess að borgarar fái skýrari og hraðari úrlausn sinna mála.

Þá er nefndinni falið að framsenda héraðssaksóknara, eða eftir atvikum ríkissaksóknara, erindi um ætlaða refsiverða háttsemi eins fljótt og hægt er í stað þess að fjalla um erindið og senda það svo áfram. Er það til þess fallið að auka skilvirkni nefndarinnar og stytta málsmeðferðartímann, en er ekki síður mikilvægt til að tryggja að rannsókn málsins geti hafist sem fyrst eftir að grunur vaknar um ætlaða refsiverða háttsemi. Í slíkum tilvikum er nefndinni því ekki falið að greina erindi sérstaklega heldur gert að beina því án tafar til héraðssaksóknara eða ríkissaksóknara.

Þá eru lagðar til breytingar á núgildandi ákvæði 35. gr. b, sem varðar rannsókn mála er varða meinta refsiverða háttsemi starfsmanna lögreglu. Með frumvarpinu er lagt til að í ákveðnum tilvikum rannsaki héraðssaksóknari, eða eftir atvikum ríkissaksóknari, brot þar sem starfsmaður lögreglu er grunaður um refsiverða háttsemi utan starfs. Á þetta við ef um alvarlegri brot er að ræða, þ.e. sem varða þriggja ára fangelsi eða meira, eða ef grunur er um brot gegn XXII. eða XXIII. kafla almennra hegningarlaga sem fjalla um kynferðisbrot, manndráp og líkamsmeiðingar.

Þá er í frumvarpinu að finna þau nýmæli að héraðssaksóknara, eða ríkissaksóknara eftir atvikum, er gert að tilkynna eftirlitsnefnd um öll mál sem embættið rannsakar og afdrif þeirra. Getur nefndin skoðað málin og atvik þeirra og tekið rökstudda afstöðu um þau. Til viðbótar er kveðið á um frekari breytingar á lögunum sem talin var þörf á í kjölfar hefðbundinnar endurskoðunar. Þær lúta m.a. að samstarfi lögreglu við önnur stjórnvöld, bæði hér innan lands sem og samstarfi við erlend lögregluyfirvöld. Er lagt til að lögfestar verði heimildir til að taka á móti erlendu lögregluliði og fela því lögregluvald hér á landi. Slíkar lagabreytingar eru forsenda þess að unnt sé að fullgilda Prüm-samkomulagið, en samningurinn var undirritaður af íslenskum stjórnvöldum árið 2009 og snýr að þátttöku Íslands í að efla lögreglusamstarf yfir landamæri, einkum í baráttu gegn hryðjuverkum og glæpastarfsemi yfir landamæri.

Þá er einnig lagt til að hæfisskilyrði lögreglustjóra taki lítillegum breytingum en með frumvarpinu er lagt til að ekki verði gerð krafa um að einstaklingar hafi náð 30 ára aldri til að gegna stöðu lögreglustjóra. Lagt er til að gera samsvarandi breytingar á hæfisskilyrðum héraðsdómara og sýslumanna. Fjöldi annarra hæfisskilyrða haldast óbreytt og ég tel að þau séu nægjanleg til að tryggja hæfi. Það skal taka mið af starfsreynslu og menntun við slíka skipun og ætti aldur ekki að vera útilokandi þáttur.

Loks er með frumvarpinu lagt til að leggja niður hæfnisnefnd lögreglu. Upphaflegt markmið nefndarinnar var að tryggja samræmi í stöðuveitingum eftir að stöðuveitingar færðust frá embætti ríkislögreglustjóra til lögreglustjóranna sjálfra. Á því fimm og hálfa ári sem nefndin hefur starfað hefur hún gert afar fáar athugasemdir og verður að telja að nefndin hafi þjónað tilgangi sínum í að tryggja vandaðra ráðningarferli á þessum fyrstu árum eftir að skipunarvaldið var flutt til lögreglustjóra. Afar mikilvægt er að tryggja að við ráðningar og skipanir í embætti hjá lögreglu, sem og annars staðar hjá hinu opinbera, sé vandað til verka. Ég tel að því markmiði verði betur náð með því að fela ríkislögreglustjóra, að höfðu samráði við lögregluráð og fjármálaráðuneytið, að gefa út samræmdar leiðbeiningar til lögreglustjóra um skipanir lögreglumanna og aðrar ráðningar innan embættanna. Ég tel markmiðum laganna þá betur náð með þeim hætti vegna þess að hluti þess mats sem þarf að eiga sér stað í upphafi ráðningarsambands þarf einnig að eiga sér stað reglulega, t.d. þegar teknar eru ákvarðanir um hvort eigi að endurnýja skipanir ef upp koma atvik eftir að ráðningarsambandið hefst sem geta valdið því að viðkomandi uppfyllir ekki lengur hæfisskilyrði.

Virðulegur forseti. Ég hef nú gert grein fyrir aðalatriðum frumvarpsins. Með þessum orðum legg ég til að málinu verði vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.