151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

vernd, velferð og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum .

368. mál
[14:02]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Aðeins meira um æðarvarp frá því áðan. Æðarvörp eru skráð en sum eru friðlýst og önnur ekki. Ég hef ekki nákvæmlega fjöldann. Við munum reyna að afla þessara upplýsinga fyrir hv. þingmann fyrir heimsókn til nefndarinnar. En það sem er í rauninni verið að gera snýr að áherslu á að æðarvörp séu friðlýst til að þau geti notið ákvæða laganna. Það er verið að styrkja það sem snýr að því.

Varðandi eggjatöku er hún heimil í almenningum fyrir tilteknar tegundir sem taldar eru upp í greininni. Varðandi bogveiði er þar akkúrat samspil við vopnalög, það var til umræðu hvort það ætti að veita slíkar heimildir til bráðabirgða að því gefnu að það myndi standast vopnalög. En við töldum rétt að vopnalögum yrði frekar breytt áður en til slíks kæmi. Þetta er auðvitað alltaf eitthvað sem nefndin getur tekið til skoðunar.