151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

vextir og verðtrygging.

441. mál
[18:00]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu. Nánar tiltekið erum við að fjalla um það viðfangsefni að hverfa frá því að bjóða upp á hinn svokallaða eitraða kokteil. Og hver er hinn eitraði kokteill? Það eru hin verðtryggðu jafngreiðslulán til 40 ára sem eru þeirrar náttúru að fyrstu 20 árin a.m.k. er ekki greidd króna inn á höfuðstól lánsins. Höfuðstóll lánsins, þegar búið er að borga af láninu í 20 ár, stendur óhaggaður. Það er ekkert byrjað að borga af honum, ekki neitt. Eignamyndun í 20 ár er engin í fasteigninni, engin. Það er þetta sem verið er að hverfa frá. Við verðum, herra forseti, að rífa okkur upp úr þessu verðtryggingarfari og þeirri þrælshugsun verðtryggingarinnar að við getum ekki verið með sjálfstætt menningarlegt þjóðríki við ysta haf öðruvísi en að vera með þá sérviskulegu uppfinningu sem verðtryggingin er.

Verðtryggingin var tekin upp sem algjört neyðarúrræði við allt önnur skilyrði og í allt öðru þjóðfélagi en við þekkjum í okkar samtíma. Það voru ekki til neinir fjármálamarkaðir sem má kalla því nafni og efnahagslífið var allt öðruvísi. Þetta er allt breytt núna, sem betur fer. Við erum með þó nokkuð þróaðan fjármálamarkað, fjölbreyttar fjármálastofnanir, við erum með algerlega breytt hagskilyrði og við höfum allt aðra möguleika á að beita nútímaaðferðum í hagstjórn til að takast á við verðbólgu.

Reyndar er það svo, eins og komið hefur fram í umræðunni, að verðtryggingin hefur haft takmarkandi áhrif og hindrað að peningastefna Seðlabankans hafi þau áhrif sem henni er ætlað. Leiðin til að komast í breytt skipulag er hagstjórn sem heldur aftur af verðbólgu. Og hvað er það? Jú, það er styrk og ábyrg stjórn á ríkisfjármálum. Í öðru lagi að fyrirbæri eins og verðtryggingin standi ekki í vegi fyrir því að Seðlabankinn geti rækt skyldur sínar við að viðhalda verðgildi gjaldmiðilsins og halda aftur af verðbólgu. Í þriðja lagi að kjaramál séu í skaplegu horfi. Þá reynir mjög á kjarastefnu stjórnvalda á hverjum tíma. Það er nefnilega þannig, herra forseti, að verðtryggingin veitir vissa fjarvistarsönnun frá því að sýna ábyrgð við stjórn mála. Menn geta verið með lausatök og óreiðu í fjármálum, peningamálum, kjaramálum, en það er einhvern veginn allt í lagi vegna þess að þetta er allt verðtryggt og helst allt í þannig jafnvægi. En þegar henni er ekki til að dreifa þá koma áhrif slíkrar ráðsmennsku þegar fram. Þau koma fram í hærri vöxtum á íbúðalánum og á öðrum lánum í þjóðfélaginu. Þannig að menn geta ekki með sama hætti skýlt sér á bak við verðtrygginguna og haft allt í sukki. Það að fjarlægja verðtrygginguna út úr kerfinu, eins og við ættum að vera löngu búin að gera, sem nú eru mjög góð skilyrði til, mun virka sem hvati til að stunda ábyrga ráðsmennsku í ríkisfjármálum, peningamálum og kjaramálum.

Herra forseti. Það er keimur í þessu annars ágæta frumvarpi af því að menn sitja svolítið fastir í verðtryggingarfarinu. Ég ætla að nefna tvö dæmi. Það er talað hér um að verðtryggð lán af tilteknu tagi hafi notið vinsælda. Það er eilítið sérkennilegt að taka svona til orða um hina illa þokkuðu verðtryggingu, að tala um vinsældir í því sambandi. Annað dæmi er að hér er talað um að ráðist verði í mótvægisaðgerðir til að standa vörð um möguleika ungs fólks og tekjulágra einstaklinga til að eignast húsnæði vegna þessa afnáms verðtryggingar á lánum til 40 ára. Í nágrannalöndunum er engin verðtrygging, hvergi. Hér er talað um að ef þessi eitraði kokteill sé tekinn í burtu þurfi mótvægisaðgerðir. En verðtryggingin veitir þessu fólki ekkert skjól. Verðtryggingin er meðal verstu óvina þessa fólks. Við vitum að verðtryggingin leiddi það af sér að 10.000 fjölskyldur voru hraktar af heimilum sínum eftir hrunið. Ef fjölskyldan er kannski þrír, fjórir, hvað er það margt fólk? 30–40 þúsund manns hraktir af heimilum sínum. Það er nú meira skjólið, þessi verðtrygging.

En auðvitað er það rétt, eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra, að almennt talað verður að koma til móts við ungt og tekjulágt fólk í húsnæðismálum. Það er sjálfsagður og eðlilegur hlutur. Einu sinni var hér til Byggingarsjóður verkamanna. Hann var lagður af, kannski af þeim sem síst skyldi. Auðvitað er það sjálfsagður hlutur að koma til móts við fólk í þessum efnum.

Herra forseti. Ég nefndi það í andsvörum að verðtryggða krónan og óverðtryggða krónan ættu ekkert sameiginlegt nema nafnið. Í vissum skilningi er verðtryggða krónan eðlislík erlendri mynt vegna þess að hún breytist eftir allt öðrum lögmálum en óverðtryggða krónan. Það er því mjög sérkennilegt að leggja bann við því að taka lán í erlendri mynt en halda svo verðtryggingunni til streitu.

Síðan er annað atriði og það er ekkert skrýtið að hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson skuli rekja það hér að það sé sín reynsla að fólk skilji ekki þessa verðtryggingu, það er bara mjög skiljanlegt vegna þess að þetta er heldur betur flókið fyrirbæri. Verðtryggingin eða verðtryggt lán hefur þann eiginleika að vera það sem heitir á fjármálaíslensku afleiða; stærð sem ræðst af undirliggjandi stærð, reyndar mörgum. Ein stærðin er verð á íbúðarhúsnæði. Sá sem hefur tekið verðtryggt lán er orðinn ábyrgur fyrir afleiðu. Við vitum það öll sem hér erum og þeir sem á okkur hlýða að afleiðuviðskipti eru ekki á færi nema kunnáttumanna með sérþekkingu. Íslenskum almenningi er ætlað að búa við það að hafa tekið ábyrgð á afleiðu þegar fólk leyfir sér að taka lán til þess að koma þaki yfir höfuð fjölskyldunnar. Þetta er svo fráleitt að það tekur engu tali.

Ég vil minna á að í tveimur dómum héraðsdóms Reykjavíkur frá því í desember sl., þar sem kveðið er upp úr um ólögmæti uppgreiðslugjalds Íbúðalánasjóðs, er fjallað um eðli uppgreiðslugjaldsins. Þar er m.a. af hálfu dómenda, sem eru þrír í hvorum dómi um sig, tekið fram að uppgreiðslugjaldið sé í eðli sínu afleiða, það sem heitir á fjármálaíslensku vaxtaafleiða. Uppgreiðslugjaldið ræðst af annarri stærð sem eru vextir á markað.

Herra forseti. Næst vildi ég víkja að öðrum þáttum sem ég hefði gjarnan viljað sjá tekið á í frumvarpinu. Tíminn fer að verða knappur, en einn þátturinn er húsnæðisliður vísitölunnar. Mér komu svolítið á óvart orð fjármálaráðherra um þann þátt vegna þess að hann svaraði fyrirspurn frá mér í maí 2018 um húsnæðisliðinn þar sem kemur fram fjárhæð verðbóta á lánum með veði í íbúðarhúsnæði á árabilinu 2013–2017. Með leyfi forseta, ætla ég að lesa tvær setningar upp úr svari hæstv. ráðherra:

„Heildarfjárhæð verðbóta á tímabilinu miðað við vísitölu neysluverðs nemur um 133 milljörðum kr. en um 15 milljörðum kr. sé miðað við vísitölu neysluverðs án húsnæðis. Hlutur húsnæðisverðsins í verðbótunum er 88,7%.“

Herra forseti. Á þessu fimm ára tímabili mátti rekja nærri 90% af verðbótunum sem lögðust ofan á íbúðalán fólks til húsnæðisliðarins eins. Ef almennar verðbreytingar hefðu einar verið reiknaðar hefðu 15 milljarðar lagst ofan á lánin. En vegna húsnæðisliðarins lögðust 133 milljarðar ofan á lánin. Þetta er svo stórfelld eignatilfærsla frá heimilunum, því að þetta eru allt saman lán með veði í íbúðarhúsnæði, vel yfir 100 milljarðar á þessu tímabili, að engu tali tekur.

Síðan vil ég nefna annað einkenni verðtryggingarinnar og það er að hér eru skattar hækkaðir til að afla fjár til einhverra verkefna og líka til að stuðla að einhverjum markmiðum eins og í loftslagsmálum, og þessir óbeinu skattar hækka þessa vísitölu og hækka lánin. (Forseti hringir.) Af hverju er það látið viðgangast ár eftir ár að lánveitendur (Forseti hringir.) séu settir í sérstakt skjól lántakenda fyrir sköttum eins og það (Forseti hringir.) eigi ekki allir að standa jafnt að vígi þegar kemur að skattlagningu?