151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

vextir og verðtrygging.

441. mál
[18:25]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil alveg punktinn vegna þess að ég hef haldið þessum rökum fram sjálfur, gerði það á sínum tíma. En eins og ég fór yfir í ræðu minni, hafandi talað um þessi mál við rosalega mikið af fólki, kláru fólki sem er vel menntað á öðru sviði, þá sé ég bara að það er ekki hægt að tryggja neytendavernd með þessum lánum. Við erum með ákveðna neytendavernd í fjármálakerfinu. Það er ekki á færi hvers sem er að stunda afleiðuviðskipti og ástæðan er sú að þekkingarleysið, sem er algerlega eðlilegt fyrir hinn venjulega borgara, verður óhjákvæmilega of mikið til þess að viðkomandi geti borið ábyrgð á sínum frjálsa vilja. Það er málið. Til að frelsið sé gagnlegt þurfum við að vita hvað við erum að gera. Það er ekki nóg að við höfum frelsi til að gera einhverja handahófskennda hluti án þess að pæla neitt í okkar eigin hagsmunum. Auðvitað þurfum við að vita hvað við erum að gera og þess vegna eru varnir í fjármálakerfinu okkar og neytendavernd almennt.

Ég skil fullkomlega hvað hv. þingmaður er að fara og ég var á þessari línu en ég er bara kominn, þótt ég vilji ekki móðga hv. þingmann, sem er yfirmáta málefnalegur, aðeins lengra og búinn að svara þessari spurningu sem hv. þingmaður vildi fara næst í, sem er hvað sé ásættanleg neytendavernd og þess háttar. Ég er bara búinn með þá spurningu og svar mitt og mín sannfæring er: Neytendavernd er ekki möguleg í þessu. Það er ekki hægt að bjóða upp á þessi lán fyrir hinn almenna borgara með sanngjörnum hætti. Ég treysti mér til að taka þessi lán. Ég hugsa að hv. þm. Ólafur Ísleifsson treysti sér til þess að taka þessi lán og hv. þingmaður, en það er vegna þess að við erum í aðstæðum þar sem við höfum getað kynnt okkur þetta og ef út í það er farið þá vinnum við við að kynna okkur þetta, sér í lagi hv. þm. Ólafur Ísleifsson. En það að einstaklingar taki ákvarðanir fyrir sig er háð því að þeir hafi réttar upplýsingar. Þar stendur hnífurinn í kúnni þegar kemur að verðtryggðum lánum.

Á næstu sekúndum ætla ég að benda á vítahringinn — ég hef í sjálfu sér enga spurningu, ég bara óska viðbragða hv. þingmanns — sem lágtekjufólk er í, fólk sem er á lágum tekjum út ævina eða þorrann af ævinni. Hann er sá að fólk neyðist til að taka verðtryggt lán, það hættir að ráða við greiðslubyrðina, það þarf að taka annað verðtryggt lán og byrjar aftur í byrjun kúrfunnar, þar sem eignamyndunin er neikvæð í langan tíma. (Forseti hringir.) Þetta fólk eignast aldrei eignina sína, skuldar meira og meira þar til enginn tími er eftir.