152. löggjafarþing — 47. fundur,  7. mars 2022.

um fundarstjórn.

[15:53]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Það kom því miður ekki mikið á óvart að formaður Sjálfstæðisflokksins nýtti tækifærið þegar hann var spurður um stöðuna í Úkraínu í óundirbúnum fyrirspurnum til að tala um alls óskylt mál, sem er staða flóttafólks á Íslandi, og sagði að það væri mjög miður að Alþingi hefði ekki samþykkt frumvörp sem hver dómsmálaráðherra flokksins á fætur öðrum hefur lagt hér fram til að hafa mannréttindi af fólki á flótta. En hann sagði að það væri von á bót og betrun og það frumvarp myndi vonandi klárast sem fyrst. Svo kom félags- og vinnumarkaðsráðherra og sagði að sú staða að úkraínska flóttafólkið hefði ekki atvinnuleyfi hér á landi væri eitthvað sem stæði til að laga og hann vonaðist til að væri hægt að gera.

Hvernig á að laga þetta, herra forseti? Jú, með ógeðsfrumvarpi dómsmálaráðherra. Það á sem sagt að nota flóttafólkið frá Úkraínu sem sykurpilluna til að kyngja ógeðinu. Þarna sýndi ráðherrann á spilin.

Ég vil beina því til virðulegs forseta að beita sér fyrir annarri lausn. Það er nefnilega til umfjöllunar í velferðarnefnd frumvarp (Forseti hringir.) sem er bara um atvinnuleyfi fólks á flótta, 201. mál, sem (Forseti hringir.) Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir lagði fram. Ég beini því til forseta (Forseti hringir.) að hann beiti sér fyrir því að það mál komi úr nefnd hingað til þings og afgreiðslu svo við þurfum ekki að sjá bölvað ógeðið frá dómsmálaráðherra.