152. löggjafarþing — 47. fundur,  7. mars 2022.

félagsleg aðstoð.

61. mál
[16:45]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Virðulegi forseti. Það er nú gaman að koma hér upp til tilbreytingar. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingar á lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, um bifreiðastyrk. Með mér á frumvarpinu eru hv. þingmenn Flokks fólksins, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Guðmundur Ingi Kristinsson, Eyjólfur Ármannsson, Jakob Frímann Magnússon og Tómas A. Tómasson.

Í 1. gr. frumvarpsins segir:

„10. gr. laganna orðast svo:

Heimilt er að greiða elli- og örorkulífeyrisþega og örorkustyrkþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar. Þá er heimilt að veita uppbót til framfærenda hreyfihamlaðra barna sem njóta umönnunargreiðslna. Með líkamlegri hreyfihömlun er átt við sjúkdóm eða fötlun sem skerðir færni til að komast ferða sinna þannig að göngugeta án hjálpartækja er að jafnaði minni en 400 metrar á jafnsléttu.

Uppbót er eingöngu heimilt að veita þegar eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:

1. Hinn hreyfihamlaði hefur sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður eða persónulegur aðstoðarmaður sem starfar samkvæmt samningi um notendastýrða persónulega aðstoð, sbr. lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

2. Mat á hreyfihömlun liggur fyrir. Fjárhæðir uppbóta eru eftirfarandi:

1. 450.000 kr. til þeirra sem uppfylla framangreind skilyrði.

2. 900.000 kr. til þeirra sem uppfylla framangreind skilyrði og eru að kaupa bifreið í fyrsta sinn. Kaupverð bifreiðar skal ekki vera lægra en fjárhæð uppbótar að teknu tilliti til niðurfellds vörugjalds þegar það á við. Uppbót er heimilt að veita á fimm ára fresti vegna sama einstaklings. Heimilt er að greiða styrk áður en gengið er frá kaupum bifreiðar ef upplýsingar um kaupverð liggja fyrir.“

Og hvers vegna skyldi þetta nú koma? Það er vegna þess að það skýtur svolítið skökku við að fá styrk til bifreiðakaupa en vera fátækur, hafa bara engin ráð á því að þeyta krónunum bara á borðið, borga bílinn, fá svo kvittunina og fara og sækja styrkinn. Þetta er í raun að byrja á öfugum enda því að það ætti að vera nóg, eins og hér kemur fram, að vera kominn með kauptilboðið og annað slíkt og ganga þannig frá því að viðkomandi geti notað styrkinn til að greiða fyrir bifreiðina sem hann er að kaupa. En það er alltaf verið að girða fyrir alla hluti, menn halda að allir séu að svindla á kerfinu. En það er bara ekki svo. Ef einstaklingur er að sækja um styrk til bifreiðakaupa er það nú alveg 99,99% að hann ætlar sér að nýta hann nákvæmlega til þess. Þetta hefur valdið mörgum miklum vanda og þar tala ég af þekkingu. Ég þekki fólk sem virkilega hefur verið að berjast fyrir því að reyna að nýta þennan styrk til bifreiðakaupa. Gamall maður sem er með hreyfihamlaða konu sagði: Við getum ekki fjármagnað þetta, við getum ekki borgað þetta, nema við fáum styrkinn fyrst. Það er því afskaplega mikilvægt að gert sé ráð fyrir því í frumvarpinu.

Og áfram segir:

„Heimilt er að greiða elli- og örorkulífeyrisþega og örorkustyrkþega uppbót til að mæta kostnaði við rekstur bifreiðar ef bótaþega er nauðsyn að hafa bifreið vegna hreyfihömlunar. Mánaðarleg fjárhæð uppbótarinnar skal nema 20.000 kr.

Uppbót til að mæta kostnaði við rekstur bifreiðar er eingöngu heimilt að veita þegar eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:

1. Hinn hreyfihamlaði hefur sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður eða persónulegur aðstoðarmaður sem starfar samkvæmt samningi um notendastýrða persónulega aðstoð, sbr. lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

2. Mat á hreyfihömlun liggur fyrir. Áður en uppbót til að mæta kostnaði vegna reksturs bifreiðar er greidd skulu lagðar fram upplýsingar um eignarhald bifreiðar. Skilyrði er að hinn hreyfihamlaði eða maki hans sé skráður eigandi bifreiðarinnar eða hafi bifreiðina í rekstrarleigu til langs tíma.

Að jafnaði er einungis heimilt að veita eina uppbót vegna kaupa á bifreið eða einn styrk skv. 10. gr. a og 10. gr. b til kaupa á bifreið. Í sérstökum tilfellum er þó heimilt að veita framfærendum hreyfihamlaðra barna uppbót eða styrk vegna hvers barns til kaupa á einni bifreið ef um er að ræða fleiri en eitt hreyfihamlað barn í sömu fjölskyldu og börnin búa á sama heimili.“

Það hefur nefnilega brugðið við, virðulegi forseti, að foreldrar hafa verið í vandræðum, jafnvel foreldrar með tvö fötluð börn. Það hefur virkilega þurft að ströggla fyrir því að reyna að fá úrbætur fyrir þessa fjölskyldu til að geta sinnt þörfum barnsins, uppfyllt þarfir barnanna og ferðast saman.

Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að halda áfram að lesa upp úr frumvarpinu sjálfu en vísa aðeins í greinargerðina.

Ég mælti fyrir þessu frumvarpi á 151. löggjafarþingi. Frumvarpið er nú endurflutt óbreytt. Skömmu eftir að frumvarp þetta var lagt fram á 151. löggjafarþingi gerði ráðherra langþráðar breytingar á reglum um uppbætur og styrki til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða. Þær reglur eru að mörgu leyti til bóta en ganga ekki jafn langt og frumvarp þetta í ákveðnum tilvikum, t.d. varðandi fjárhæðir. Auk þess er mikilvægt að tryggja réttindin í lögum, enda hefur reynslan sýnt fram á að ráðherrar geta með litlum fyrirvara skert réttindi með því að breyta reglugerðum.

Fatlað fólk á að njóta sömu mannréttinda og aðrir. Lög og reglur eiga að tryggja þau mannréttindi. Hreyfihamlað fólk á að njóta ferðafrelsis til jafns við aðra. Lög um félagslega aðstoð hafa að geyma ákvæði sem fjalla um styrki til bifreiðakaupa fyrir hreyfihamlaða. Þau ákvæði fela ráðherra nánari útfærslu á nánast öllum skilyrðum fyrir veitingu slíkra styrkja. Á grundvelli 10. gr. laga um félagslega aðstoð er í gildi reglugerð, nr. 905/2021, sem fjallar nánar um bifreiðastyrki og skilyrði fyrir veitingu þeirra.

Á grundvelli reglugerðarinnar er hægt að sækja um uppbót til bifreiðakaupa vegna hreyfihömlunar, að fjárhæð 360.000 kr., eða styrk til kaupa á bifreið vegna verulegrar hreyfihömlunar, að fjárhæð 1.440.000 kr., eða styrk til kaupa á sérútbúnum bifreiðum sem getur numið allt að 6.000.000 kr. Í framkvæmd hefur það reynst mörgum erfitt að sækja um slíka styrki vegna þess hve ströng skilyrði eru fyrir veitingu þeirra.

Sem dæmi um hve ströng skilyrðin eru má nefna það að á grundvelli eldri reglugerðar greiddi Tryggingastofnun ekki út styrki til þeirra sem nota göngugrind vegna þess að reglugerðin skilgreindi verulega hreyfihömlun sem svo að einstaklingur væri t.d. bundinn hjólastól og/eða notaði tvær hækjur að staðaldri. Hin nýja reglugerð hefur að geyma sömu skilgreiningu. Þessi framkvæmd hefur viðgengist þrátt fyrir ábendingar lækna og hreyfihamlaðra um að einstaklingur sem þarf að nota göngugrind að staðaldri sé í raun haldinn jafn verulegri hreyfihömlun og fólk sem notast við tvær hækjur — og í raun meiri, vegna þess að mjög margir þeirra sem nota göngugrind treysta sér engan veginn til að nota hækjur, bara alls ekki. Annað dæmi um ósveigjanleika er regla í eldri reglugerð sem bannaði fólki að selja bifreið fyrr en fimm árum eftir styrkveitingu. Þetta olli fólki gjarnan vandræðum þegar þörf var á að endurnýja bifreið. Þegar fátækt fólk fær styrk til að kaupa bifreið þá stendur því ekki til boða að kaupa nýja bifreið. Það er alkunna að mikill munur er á endingargetu bifreiða.

Ég ætla ekki að halda áfram hér nema ég ætla að benda á að það sem við erum líka að taka fram í frumvarpinu er að við viljum tengja þessar fjárhæðir vísitölu. Þessi reglugerð sem sett var árið 2009 og upphæðin 300.000 kr. — það er núna komið í 360.000 kr.

Virðulegi forseti. Það er dapurt hvernig málaflokkur þeirra sem verst eru staddir í samfélaginu, málaflokkur fatlaðs fólks, og það sem ríkinu ber að gera til að styrkja og vernda þann þjóðfélagshóp, hefur algerlega verið í skötulíki og í handbremsu og nauðhemlað allan hringinn. Fólk sem þarf á því að halda er ekki einu sinni vísitölutengt þannig að þó að bifreiðin hafi hækkað um milljónir á þessu tímabili þá breytir það engu. Ágæti öryrki og hreyfihamlaði einstaklingur sem átt rétt á þessu, þú skalt bara kaupa þér hjólbörur. Er það málið? Eru það skilaboðin, virðulegi forseti? Það er algjört lágmark að við sýnum þá mannvirðingu, gagnvart þeim þjóðfélagshópum sem þurfa virkilega á aðstoð okkar að halda, að við a.m.k. vísitölutengjum þær fjárhæðir sem þeim eru naumt skammtaðar, eins og í þessu tilviki fyrir 13 árum.

Ég vonast til að tekið verði vel utan um þetta mál því að það mun ekki setja ríkissjóð á hliðina, það er nokkuð ljóst. Ég legg til að málinu verði vísað til hv. velferðarnefndar og hún taki virkilega vel utan um það og það komi sem fyrst aftur inn í þingið þannig að við getum samþykkt frumvarpið og hjálpað því fólki sem við viljum vonandi öll hjálpa.