152. löggjafarþing — 47. fundur,  7. mars 2022.

félagsleg aðstoð.

61. mál
[16:56]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Þetta frumvarp um félagslega aðstoð, bifreiðastyrki, er mjög nauðsynlegt frumvarp og eiginlega enn eitt frumvarpið sem við erum að leggja fram sem sýnir að ríkisstjórnin þarf aldeilis að hysja upp um sig buxurnar í þessum málum. Það er henni til háborinnar skammar hvernig hún hefur komið fram við fólk sem þarf virkilega á aðstoð að halda við kaup á bifreiðum. Settar eru upp ákveðnar tölur sem síðan eru aldrei uppfærðar heldur látnar grotna niður þannig að færri og færri geta nýtt sér þetta úrræði.

Við verðum að átta okkur á því að í þeirri færð sem hefur verið undanfarið, t.d. hér á höfuðborgarsvæðinu, þá er ekki nokkur leið að ætlast til þess að fólk sem er á hjólastólum eða á hækjum eða með göngugrind geti nýtt sér almenningssamgöngur. Það er bara stórhættulegt fyrir þetta fólk að fara hreinlega út þar sem svellbunkar og snjór eru og þess vegna er nauðsynlegt að sjá til þess að viðkomandi einstaklingar sem þurfa virkilega á bifreið að halda eigi þennan möguleika. Sérstaklega verðum við líka að taka tillit til bæði gengishækkana og að verið er að rafvæða bifreiðar og verðum að sjá til þess að þeir einstaklingar sem vilja kaupa sér vistvænar bifreiðar geti gert það.

Þetta frumvarp er hið besta mál og vonandi verður farið að gera eitthvað í þessum málum vegna þess að í sjálfu sér er þetta hluti af því að við myndum lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðra. Þá væri ekki hægt að haga sér svona eins og ríkisstjórnin hefur gert árum og áratugum saman og látið svona mál eiginlega grotna fyrir framan nefið á okkur. Sú hjálp sem á virkilega að vera fyrir þetta fólk dugir ekki til að gera eitt né neitt. Fyrir utan að þegar fólkið hefur loksins fengið jafnvel bifreið þá þarf það að eiga hana í fimm ár, jafnvel eldgamla bifreið sem krefst mikils viðhalds, þannig að þetta er hið besta mál og ég vona heitt og innilega að það verði samþykkt en því miður dugir sú von sennilega ekki til en vonandi sér ríkisstjórnin ljósið og gerir eitthvað í þessu máli.