152. löggjafarþing — 47. fundur,  7. mars 2022.

staðan í Úkraínu, munnleg skýrsla utanríkisráðherra. - Ein umræða.

[17:18]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Við höfum horft upp á svívirðilega árás, innrás rússneskra stjórnvalda í Úkraínu, í tæplega tvær vikur og því miður er fátt sem bendir til þess að séð verði fyrir endann á þessum ósköpum. Það er þó gott að sjá að Evrópa og bandalagsþjóðir okkar hafa verið samstiga í markvissum aðgerðum og flokkar hér á Alþingi líka, enda er mikilvægt að þjóðir sem standa fyrir lýðræði og frelsi standi þétt saman. Þá er ástæða til að hrósa hæstv. utanríkisráðherra fyrir einarðar yfirlýsingar hennar og þakka fyrir gott upplýsingaflæði.

Það er erfitt að átta sig á fyrirætlunum Pútíns en sagan kennir okkur að við getum átt von á flestu úr þeirri áttinni, enda hótaði hann beitingu gjöreyðingarvopna í upphafi stríðsins. Og þótt þetta stríð sé háð milli tveggja landa er það síður en svo einkamál þeirra, ekki síst þegar árásaraðili gengur svona freklega á rétt hins. En þá hefur hin ólöglega innrás líka haft áhrif langt út fyrir landamæri í Úkraínu og mun hafa víðtæk áhrif, ekki síst á öryggis- og varnarmál næstu áratugi. Í fyrsta lagi er auðvitað nærtækast að horfa á mannfall, þjáningar og eyðileggingu sem úkraínska þjóðin hefur þurft að standa andspænis og það er sorglegt að fylgjast með milljónum fólks neyðast til að yfirgefa heimili sín á vit mikillar óvissu. Nú þegar hefur stríðið valdið meiri fólksflótta í Evrópu en dæmi eru um frá því í seinna stríði. Við þessu þurfum við Íslendingar að bregðast með miklu kröftugri hætti en við höfum þegar gert, bæði með móttöku flóttamanna hingað en einnig með því að aðstoða nágrannaþjóðir Úkraínu í augljósum vanda. Moldavía er t.d. meðal þeirra ríkja sem opnað hafa landamæri sín. Þar búa tvær og hálf milljón manna en nú þegar hafa 250.000 Úkrana flúið þangað, 10% af þjóðinni.

Í öðru lagi þá upplifa mörg ríki, líka vinaþjóðir okkar, mjög réttmætt og eðlilegt óöryggi. Þar má nefna Eystrasaltsríkin og sum Norðurlöndin. Nýjar skoðanakannanir sýna t.d. að það er orðinn meiri hluti fyrir aðild að Atlantshafsbandalaginu bæði í Svíþjóð og Finnlandi, sem segir auðvitað sína sögu.

Í þriðja lagi skulum við heldur ekki gleyma þeim Rússum sem eru heima fyrir og eru andvígir innrásinni en sæta nú ofríki eða eru jafnvel handteknir af eigin stjórnvöldum, og auðvitað ekki heldur þeim Rússum sem búa erlendis, jafnvel skólabörnum sem mæta óþolandi fordómum.

En í fjórða og síðasta lagi skulum við muna að við Íslendingar munum heldur ekki fara varhluta af þessum ófriði. Þótt lífi okkar verði vonandi ekki ógnað mun þjóðarbúið og heimilin svo sannarlega finna fyrir ástandinu með verri efnahag. Við Íslendingar eigum þar líka mikið undir að friður náist og eigum að nýta helstu útflutningsvöru okkar í utanríkismálum, baráttu fyrir frelsi, jafnrétti og jöfnuði.

Innrásin í Úkraínu er þegar farin að hafa mikil áhrif á utanríkispólitík vestrænna ríkja. Það er líklegt að við munum sjá miklu meiri áherslu á öryggis- og varnarmál í utanríkisstefnu Evrópuríkja. Lönd eins og Þýskaland hafa breytt um kúrs og hafa bætt 100 milljörðum evra í varnarmál landsins. Fleiri þjóðir vilja nú að Evrópa leggi meiri áherslu á frið og móti sterka sameiginlegra utanríkis- og varnarmálastefnu. Við eigum auðvitað gott bakland með aðild okkar að NATO en þessir atburðir hljóta að hvetja okkur frekar en letja til þess að leggjast á sveif með aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Það er nefnilega ekki bara spurning um stöðugri efnahag og betri gjaldmiðil, heldur fyrst og fremst það þegar kemur að miklum og dýrmætu málum, eins og baráttu gegn loftslagsógninni og fyrir frelsi og friði í heiminum.

Frú forseti. Það er auðvitað óskandi að það náist samningar sem leiða til friðar, en því miður er margt sem bendir til þess að það sé bara erfitt að sjá hver samningsgrunnurinn er því að kröfur Pútíns um að Úkraína afvopnist og lýsi því yfir að þau muni um langa framtíð vera hlutlaus eru auðvitað bæði óásættanlegar og óforskammaðar. Úkraína er sjálfstætt ríki með sjálfsákvörðunarrétt og viðurkennd landamæri sem verður að virða og fáir ættu að skilja það betur en smáríki eins og Ísland. Það er þess vegna líklegt að þessi ófriður vari um einhvern tíma í viðbót og hann gæti jafnvel þróast með svipuðum hætti og við höfum horft upp á í Afganistan. Þótt Pútín nái lykilborgum og geti sett á leppstjórn verður eflaust barist þarna í mörg ár í borgum í þessu næststærsta landi í Evrópu, held ég. Á þessu áttar Pútín sig sjálfsagt og þess vegna er líklegt að hann spái því að slíkt stríð muni minnka liðsandann, muni verða óvinsælt heima fyrir, sem gæti freistað hans til að ráðast með enn stærri og fullkomnari vopnum sem myndi leiða til mikillar eyðileggingar og auðvitað ógeðslegs mannfalls óbreyttra borgara í miklu meira mæli en við höfum jafnvel séð núna. Og því miður eru þessar tvær sviðsmyndir sem við stöndum frammi fyrir aðeins tvær ólíkar útgáfur af helvíti fyrir úkraínsku þjóðina. Það er þess vegna mikilvægt að NATO og ESB og önnur ríki leiti allra leiða til að binda enda á þessa ólögmætu innrás, þó á þann hátt að stríðið breiðist ekki hraðar eða víðar út en það hefur þó gert núna með ófyrirséðum afleiðingum fyrir okkur öll. Vandi okkar felst þess vegna núna fyrst og fremst í því ekki hvort heldur hvernig við þurfum að bregðast við á næstu dögum.