152. löggjafarþing — 47. fundur,  7. mars 2022.

staðan í Úkraínu, munnleg skýrsla utanríkisráðherra. - Ein umræða.

[17:25]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir hennar góða erindi hér áðan og tek undir með öðrum sem hafa tjáð sig fyrr í dag á góðum fundi með henni og ráðuneytinu. Þar hefur verið haldið vel og með ábyrgum hætti utan um þessi mál og það er mikilvægt hvernig á þessu er haldið út á við. Við vitum að löngu fyrir Covid og löngu fyrir þetta stríð hefur andlegri heilsu á Íslandi farið dálítið hrakandi. Það er ekki nein haldbær skýring á því að því er virðist en kvíði og andleg vanlíðan er mjög útbreidd hér og neysla geðlyfja meiri en þekkist í kringum okkur og fer vaxandi. Það er nokkuð ljóst að það má vafalítið reikna með því að þeirri heilsu hafi enn hrakað við þessar fréttir sem nú eru og áhyggjur fólks fari vaxandi.

En við erum hér að fara yfir þessi mál í utanríkismálanefnd og fórum, við hv. þingmenn Bjarni Jónsson, formaður nefndarinnar, og Jóhann Friðrik Friðriksson á COSAK-ráðstefnu í París í síðustu viku þar sem loftslagsmál og fleira var til umræðu. Vorum þar með atfylgi Stígs Stefánssonar, starfsmanns nefndarinnar. Það var auðvitað nokkuð ljóst og fyrirséð að athyglin á auglýstri dagskrá færðist af þeim liðum sem þar voru kynntir og yfir á mál málanna og auðvitað voru þarna aðilar víða að úr Evrópu. Bretar voru þarna meira að segja þó að þeir séu ekki lengur í Evrópusambandinu. Hvað sem okkur finnst um það þá eru skiptar skoðanir um hversu áhrifamikið Evrópusambandið getur verið eða hefur verið í þessu samhengi og frekar en að tala um European Union þá blasti eiginlega við „European unity“. Það var nokkuð þétt samstaða með þjóðunum og ef það er „European unity“, samstaða Evrópu, þá leiðir hún að líkindum að samstöðu heimsins, enda af flestum talin vagga lýðræðis og fyrirmyndar þjóðskipulags.

Þarna kom m.a. til umræðu með hvaða hætti við getum, hver þjóð fyrir sig, orðið að sem bestu liði og ég held að við séum að gera nokkurn veginn allt rétt. Við erum að senda fé og ég held að við ættum að efna til söfnunar á meðal almennings og jafnvel söfnunar á fleiri hlutum ef við getum sameinast um að hjálpa þessari þjóð í vanda. Við erum aðilar að NATO og við erum ábyrgir aðilar að því varnarbandalagi, sem er auðvitað hernaðarbandalag líka, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Víglínur íslenskra stjórnmála um áratugi snerust um afstöðuna til þessa bandalags sem mótmælt var harðlega hér 1949, eins og við þekkjum öll. Við erum með ríkisstjórn þar sem oddaflokkurinn sem fer með forsætisráðuneytið er í prinsippinu andvígur aðild að NATO og hefur ekki viljað gangast inn á það. Þannig að við erum með andlit ríkisstjórnarinnar sem er friðsöm kona og konur eru almennt ekki knúnar áfram af sömu fífldirfskunni og testósteróndrifnu árásargirninni sem dregur karldýrin almennt til að taka slaginn, ná bráðinni eða glata lífi sínu. Kvendýrið er ábyrgara og friðsælla heima fyrir með ungana og ver heimilið og mér finnst ágætistilhugsun að við séum með konur hér í ábyrgðarstöðum, bæði í forsætisráðuneyti, utanríkisráðuneyti og við hugsum til Vigdísar okkar Finnbogadóttur. Mér finnst orka tvímælis hugmyndir um það að hér eigi að fara að endurreisa herstöð og koma upp her á Íslandi að nýju. Þess vegna brá mér nokkuð við fréttir af því að hér væri verið að reisa 1.500 íbúðir á Miðnesheiði í tengslum við hersetu. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Er það tilfellið að við séum þegar farin að reisa íbúðir fyrir erlenda hermenn á Íslandi eftir að þeir kvöddu okkur fyrir um 17 árum síðan?