Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[21:40]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Gísla Rafni Ólafssyni fyrir þrumuræðu hér áðan. Mig langar líka, að gefnu tilefni, til að þakka Pírötum fyrir þeirra þrotlausu baráttu gegn því að almenningur sé rukkaður fyrir að fá að skoða opinbera ársreikninga. Píratar hafa verið duglegir við að aðstoða almenning við að þurfa ekki að borga og taka upp veskið fyrir hvaða smáviðvik sem er. En ég velti fyrir mér hvort við séum ekki að uppskera nákvæmlega þetta frumvarp, þessar breytingar á frumvarpinu um hlutafélög og einkahlutafélög og annað slíkt, í kjölfarið á þeirri tæknibyltingu sem við tileinkuðum okkur í Covid. Hér er verið að tala um að það skipti ekki máli hvort viðkomandi hlutafélag er skráð á markað eða ekki skráð á markað heldur sé það hagræðingin sem felst í því að geta tekið þátt í hluthafafundi, hvort sem þú ert í Japan eða Róm eða á Íslandi, ef ég skil þetta rétt. Hv. þm. Eyjólfur Ármannsson talar um hnappinn. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekkert vit á þessum töfrahnappi. En ef ég skil það rétt er þetta slíkur töfrahnappur að hann er í raun eins og töfrastafur. Mig langar til að fá pínulítið betri útskýringar á því. Ég fer frekar á eftir, í síðara andsvari mínu við hv. þingmann, í að nefna þær umsagnir sem bárust um frumvarpið.