Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[22:30]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég ætla að taka undir það sem kom fram í máli hv. þingmanna Björns Levís Gunnarssonar og Andrésar Inga Jónssonar varðandi 16. dagskrármálið sem við vorum einmitt tilbúin að fara að ræða hér þegar við stukkum í matarhlé. Svo var ákveðið að hoppa yfir það og þá þurftum við að gjöra svo vel og vera tilbúin í næsta. Ég ætla bara að nefna þetta sem dæmi. Þá er ástæðan akkúrat áhugaverð fyrir því að það var tekið út á þessum tímapunkti, vegna einhverra villna sem fundust. Ég vil taka undir það sem hér hefur komið fram, það hafa fundist villur í fleiri málum, misalvarlegar, sem hafa bæði valdið svona breytingum á dagskrá og annað en munu líka valda vandkvæðum við afgreiðslu mála hér í þingsal. Ég vil bara benda á að það er hætt við því að þetta gerist þegar verið er að koma með svona mörg mál. Meiri hlutinn er að koma með mörg mál algerlega á síðustu stundu núna, mál sem eru tímaviðkvæm en hefðu ekki þurft að vera það, sem hægt var að sjá fyrir með miklu meiri fyrirvara að þyrftu að koma fyrir þingið fyrir áramót. (Forseti hringir.) Ég vil bara gagnrýna það enn og aftur að við höfum skamman tíma til stefnu og það er mikið af málum sem hefðu mátt koma fram mun fyrr. (Forseti hringir.) Það er mikil hætta á villum þegar verið er að flýta sér með þessum hætti.