Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[22:52]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Nei, ég kannast ekkert við þennan hnapp enda hef ég ekki átt lítið fyrirtæki eða örfyrirtæki eða skilað neinu þar inn. Ég vona að það sé möguleiki til að skila ársreikningaskrá á réttan stað, það sé þannig hnappur: Vinsamlegast klárið fyrir mig alla aðra pappírsvinnu og rafræn skil sem ég þarf að gera með tilliti til þeirra upplýsinga sem eru í skattframtalinu. Skattframtalið er í rauninni gott dæmi um það hvernig þú ert kominn með allar tölur á rétta staði í gagnagrunnum og þess háttar og gögnin eru mjög aðgengileg fyrir tölvur. Það er hægt að lesa gögn úr pdf-skjölum. Það fer eftir því hvernig pdf-skjalið er gert, það er hægt að gera það á þó nokkuð marga mismunandi vegu. Það er hægt að lesa það á forritanlegan hátt. En eitt pdf-skjal þarf ekki að vera eins og annað pdf-skjal þó að þau líti jafnvel eins út. Þú getur tekið pdf-skjal, fyllt inn í eyður sem þar eru, svona forritunarlega séð, til þess að fylla inn, þú getur prentað það út og skannað og faxað til viðkomandi stofnunar, sem sagt ársreikningana, og þá ertu búinn að loka í rauninni öllum forritanlegu svæðunum og aðgenginu að þeim. Þetta er nákvæmlega sama pdf-form sem þú sendir annars vegar rafrænt með tölvupósti eða með faxi eða hvernig sem þú gerir það. Og af því að þetta er ársreikningur, þá er kannski eitthvert endurskoðunarfyrirtæki með sína útgáfu í sínu bókhaldsforriti eða einhverju því um líku sem er öðruvísi en hjá einhverjum öðrum. Samkvæmt þessari lagagrein er það eitthvað sem ársreikningaskrá gæti gert ákveðinn staðal um, að þetta verði að vera með þessu fyrirkomulagi. Þá getur þú breytt útlitinu þó að innihaldið, efnislegu gögnin, sé það sama.