Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[22:55]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir svarið við spurningu minni. Það er greinilegt að hann þekkir vel til pdf-formsins og þetta er mjög mikilvægt form að sjálfsögðu. Í þessu frumvarpi er verið að leggja til að ársreikningum og samstæðureikningum skuli skilað rafrænt til ársreikningaskrár í samræmi við reglur sem ársreikningaskrá setur. Mér finnst vanta þarna möguleika og skyldu fyrirtækjanna að senda ársreikninga og samstæðureikninga rafrænt þannig að hægt sé að afla gagna, þannig að stjórnvöld geti aflað gagna frá fyrirtækjum, t.d. um fjárfestingar. Við erum nú félagar í fjárlaganefnd og þar hafa komið upp t.d. fjárfestingar atvinnuvega og atvinnulífsins og hvers eðlis þær eru og annað slíkt og þar hefur meira að segja komið fram að það liggi ekki fyrir upplýsingar um þær. Það er grundvallaratriði hvað varðar hagstjórn að vita hverjar fjárfestingar fyrirtækja eru og í hvað þær eru að fara. Við erum kannski með viðskiptahalla og það getur verið vegna fjárfestinga þar sem við erum að fjárfesta í atvinnutækjum sem munu skila okkur auknum hagvexti síðar, sem getur borgað upp skuldirnar seinna. Ég get tekið dæmi: Bandaríkin voru rekin áratugum saman með viðskiptahalla við útlönd þegar þau voru að vaxa eftir borgarastyrjöldina. Telur hv. þingmaður ekki rétt að í þessu frumvarpi komi fram að við förum alla leið og skyldum fyrirtæki til að skila inn ársreikningum og samstæðureikningum á ákveðnu stöðluðu formi jafnvel þar sem er t.d. hægt að lesa út úr fjárfestingarnar, hversu miklir peningar eru settir í þær og á hvaða sviðum fjárfestingarnar eru? Líka varðandi aðrar upplýsingar, t.d. varðandi hallarekstur þannig að við getum borið saman hvernig staðan er í efnahagslífinu á hverjum tíma. Ég tel þetta í sjálfu sér mjög mikilvægar upplýsingar og það væri gott að heyra álit þingmannsins á þessu.