Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[22:57]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Jú, einmitt. Ég held að lagagreinin sé nægilega góð í rauninni til að það sé hægt að framkvæma þetta á þann hátt sem hv. þingmaður lýsir. Greinargerðin hins vegar sýnir okkur ákveðna þröngsýni varðandi það hvað er hægt að gera með tækninni, lýsir mjög gömlu sjónarhorni á það hvernig við deilum upplýsingum okkar á milli. Það kemur mér ekkert á óvart, alls ekki. Við þurfum að leggja rosalega mikið á okkur til að uppfæra þá þekkingu í stjórnkerfinu, það gerist ekkert sjálfkrafa. Það er mjög eðlilegt að stjórnsýslan hafi þessa þekkingu miðað við það að við höfum ekki verið nægilega góð í að uppfæra þá þekkingu á undanförnum árum, í rauninni vel fyrir hrun. Þetta er algerlega fyrir hrun þekking á gagnadreifingu eða gagnageymd og þess háttar. Ég vonast til þess að fyrst að það á að setja upp þessa staðla þá verði Stafrænt Ísland kallað til til þess að ráðleggja um það hvernig er best að gera það. Það er í rauninni rosalega einfalt. Það eru bara skilgreind ákveðin gagnasvæði og tegund þeirra gagna sem á að skila í þeim gagnasvæðum. Þetta er bara einfaldur listi. Hann er kannski mjög langur en hann er í rauninni mjög einfaldur þannig að það er ekki flókið að gera þetta.