Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[23:42]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegi forseti. Mig langar bara að þakka hv. þingmönnum sem hingað hafa komið upp á undan mér fyrir að vekja athygli á hlutum sem ég hafði hreinlega ekki hugsað út í við lestur þessa lagafrumvarps. Hér er um frekar stórt og umfangsmikið frumvarp að ræða og í fyrri ræðu minni hér í kvöld, sem ég náði reyndar ekki að fara nógu vel yfir, kom ég inn á nokkra hluti. Ég nefndi m.a. 3. gr. varðandi aðalfund í félögum og þar sem hlutir hafa verið teknir til viðskipta á skipulegum markaði og gerði athugasemd við að það sé bara talað um skipulegan markað.

Mér líður eins og ég hafi ekki náð að koma þessu nógu vel frá mér, virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að ég gerði athugasemd við að þetta væru aðalfundir en ekki aukafundir eða hluthafafundir var af því að ég þarf náttúrlega fyrst og fremst að útskýra hvað aðalfundur hlutafélags er. Aðalfundur er í raun ákveðinn í samþykktum en aðalfundur má ekki vera haldinn sjaldnar en einu sinni á ári en má þó heldur aldrei vera haldinn síðar en innan átta mánaða frá lokum hvers reikningsárs og þess vegna ákvað ég að gera smá athugasemd við þessa breytingu í 3. gr., af því að þarna er þetta bara takmarkað við aðalfundi. En hvað með t.d. aukafundi og hluthafafundi?

Eins gerði ég athugasemd við 1. gr. í fyrstu ræðu minni í 2. umr. í síðustu viku. Aldrei þessu vant tek ég undir með Samtökum atvinnulífsins og Viðskiptaráði Íslands en þau gerðu athugasemd við að bara væri talað um skráð félög. Ég kom inn á þetta í andsvörum mínum við hv. þm. Eyjólf Ármannsson og ég kom líka inn á þetta í ræðu minni fyrr í kvöld og ræðu í síðustu viku. Þetta er takmarkandi, forseti. Það er ekki búið að hugsa þessa lagabreytingu nógu mikið í gegn af því að skráð félög eru ekki einu félögin sem eru með hluthafafundi. Það að takmarka þennan rétt fyrir rafræna fundi bara við skráð félög finnst mér vanhugsað. Því var svarað í nefndaráliti hvers vegna ekki var fallist á þessa breytingu og talað um minnisblað frá ráðuneytinu og því spyr ég, virðulegi forseti: Erum við ekki löggjafinn? Erum við ekki þau sem móta hér lögin? Ég vissi ekki að minnisblað frá ráðuneyti, sem er framkvæmdavaldið nota bene, trompaði löggjafann, umsagnaraðila og þá sem vita betur en við.

Að öðru, en ég sé að tíminn er á þrotum, virðulegi forseti. Ég talaði líka um hluthafafundi, að þetta næði mögulega ekki til hluthafafunda. Í 3. gr. er talað um boðun á aðalfund í félaginu en því spyr ég: Hvað með hluthafafundi? Varðandi hluthafafundi þá þurfa gögn að liggja fyrir á þeim fundum. Þau gögn sem þurfa að liggja fyrir eru dagskrá og endanlegar tillögur. Ef þetta er aðalfundur þarf ársreikningur, samstæðureikningur, skýrsla stjórnar og skýrsla endurskoðenda og skoðunarmanna að liggja fyrir, en það er tímarammi á þessu. Samkvæmt lögum og samþykktum núna þurfa þessi gögn að liggja fyrir í a.m.k. viku, þau þurfa að vera gerð aðgengileg hluthöfum viku fyrir fund. Þess vegna fagna ég þessari 3. gr. rosalega mikið af því að það er talað um aðalfund og að boða til hans minnst þremur vikum fyrir fund og lengst sex vikum fyrir fund, á meðan talað er um fyrir hluthafafundi að þessi gögn þurfi að liggja fyrir viku fyrir fundinn. Þess vegna geri ég athugasemd við að þetta lagaákvæði nái ekki til hluthafafunda en bara til aðalfunda því það eru ekkert minni háttar hlutir ræddir á hluthafafundum, virðulegi forseti, heldur finnst mér jafn mikilvægir hlutir vera ræddir á hluthafafundum, enda eru hluthafarnir þeir sem ráða og mér finnst að stærri og umfangsmeiri ákvarðanir ættu að vera teknar á hluthafafundum. En það er eitthvað sem ég kem að í seinni ræðu minni og mér finnst að Alþingi mætti skoða að veita hluthöfum meiri rétt í félögum.