Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  13. des. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[00:43]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Eyjólfi Ármannssyni fyrir andsvarið. Ég verð að hryggja hv. þingmann með því að segja: Nei, ég bara veit það ekki. Ég veit ekki hvaða vandkvæði það gætu verið við að undirbúa fund sem gerir þetta nauðsynlegt. Ég verð nú að játa að ég vildi óska þess að ég hefði meiri reynslu á þessum vettvangi til að geta gert mér í hugarlund hvað nákvæmlega liggur þarna að baki. Auðvitað hringir þetta viðvörunarbjöllum um að þarna sé verið að búa til einhverjar reglur sem gætu fallið betur að hagsmunum tiltekinna aðila frekar en annarra og þess vegna veldur þetta áhyggjum. Það eru auðvitað viðvörunarbjöllurnar sem byrja að hringja þegar, eins og á við í þessu frumvarpi og fleirum reyndar sem þessi ríkisstjórn hefur lagt fram og eru til umræðu í þinginu, í greinargerð er í raun engan rökstuðning að finna, engar útskýringar að finna. Það er eitthvað sem býr þarna að baki sem við hreinlega vitum ekki hvað er. Ég tel það eiga við um þetta. Það er látið í veðri vaka að það sé augljóst að það geti verið vandkvæðum bundið að undirbúa fund ef fólk getur boðað sig á fundinn með tveggja mínútna fyrirvara eða bara mætt á fundinn án þess að gera boð á undan sér. En ég játa að ég get ekki í fljótu bragði ímyndað mér hvaða vandkvæði það ættu að vera. Ég þyrfti sennilega að grípa til mjög fjörugs hugmyndaflugs og ég verð nú að játa að þó að það sé jafnan ekki á neinum listrænum mælikvarða þá skánar það svo sem ekki eftir því sem líður á kvöldið og klukkuna vantar korter í eitt. Ég verð því miður að svara hv. þingmanni með þessum hætti: Nei. Ég bara get ekki ímyndað mér það og bara veit það ekki.