154. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2023.

stuðningur við mál um græna orkuframleiðslu.

[15:57]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegur forseti. Aftur að fundarstjórninni. Ég held einmitt að það sé gráupplagt sem hv. þm. Inga Sæland kom inn á hér áðan, við eigum að setja þetta mál á dagskrá því að málið er alvarlegt. Það er ekki hægt að koma hingað upp í einhverri kerskni og ef það er innlegg til að mynda Samfylkingarinnar að það sé bara hægt að taka þessu léttvægt — það ríkir neyðarástand í orkumálum í landinu og þá er bara komið upp og einhverjir brandarar sagðir. Mér finnst það ekki smart, ef ég á að segja eins og er. Það hefur örugglega ekki verið léttvægt fyrir hv. þm. Jón Gunnarsson að draga fram raunveruleikann í þessu máli í útvarpsviðtali í dag. Hann er í meiri hluta í þinginu og þarf að styðja þessa ríkisstjórn. Við stöndum frammi fyrir algjörri kyrrstöðu í orkumálum, algjörri, þannig að ég bið bara fólk um að fara ekki að snúa þessu upp í einhverja kerskni. Málið er grafalvarlegt og okkur í þinginu ber að mynda hér meiri hluta (Forseti hringir.) sem kemur okkur áfram og úr þessari kyrrstöðu og upp úr þessum hjólförum (Forseti hringir.) sem við erum föst í þegar kemur að orkuöryggi heimilanna í landinu.