131. löggjafarþing — 47. fundur,  2. des. 2004.

Rannsóknir og nýting á jarðrænum auðlindum.

374. mál
[16:31]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Hv. þm. Jóhann Ársælsson hefur farið yfir þann hluta frumvarpsins sem snýr að úthlutun leyfa og ýmislegu öðru, gert þar grein fyrir sjónarmiðum jafnaðarmanna og spurt hæstv. ráðherra eðlilegra spurninga um þau efni. Ég tek undir með hv. þm. Jóhanni Ársælssyni um að hér leita á grunnspurningar um eignarhald, sérstaklega í ljósi þeirra nýju aðstæðna sem blasa við eftir að samkeppni komst á við orkuöflun og á orkumarkaði. Það er auðvitað kominn tími til þess að við reynum að svara þessum spurningum öll saman og hvert í sínu lagi. Það er erfitt að taka á máli af þessu tagi og kannski vorum við fullfljót á okkur — ég tala nú bara um okkur sem Íslendinga — að hlíta þeim raforkutilskipunum sem við hefðum kannski ekki þurft að gera, fullfljót á okkur vegna þess að við erum bara hreinlega ekki búin undir þá ferð sem fara skal. Okkur vantar betri eignarskilgreiningar í lög og í hugsun, og það eru auðvitað sérstaklega skilin milli annars vegar þjóðareignar eða almannaeignar og hins venjulega hefðbundna eignarréttar sem við þurfum að hafa gleggri og líta ekki svo á að einkaeign ríkis eða sveitarfélaga samsvari þjóðareign eða almannaeign, eins og mér virðist vera skilningur flestra hæstv. ráðherra ríkisstjórnarinnar.

Hins vegar tel ég að við stöndum í þeim sporum gagnvart þessu máli að við lagasetningu þess frumvarps fyrir sex árum sem nú er orðið að þeim lögum sem þetta frumvarp á að leysa af hólmi hafi allt of víðtæk eignarvöld fylgt því að eiga jörð eða jarðarskika og það þurfi að endurskoða rækilega. Þetta tvennt held ég að valdi því að við erum vanbúin að fást við þetta mál og kannski ekki furða að hæstv. iðnaðarráðherra sé í vandræðum með að útskýra einföldustu hluti hér í umræðunni.

Við þurfum að skilja þessi hugtök og tileinka okkur þau. Ef við gerum það kynni umræða okkar að fara á annað stig. Ég tek dæmi af hugmyndafræði klassískra sjálfstæðismanna sem lítið er af hér í salnum, því miður, og þá á ég við klassíska sjálfstæðismenn fyrir tíma nýlíberalismageðþóttafrekjuhundstittanna. Þeir líta ósköp einfaldlega svo á að aðeins sé til ein gerð af eignarrétti, hinn hefðbundni einkaeignarréttur, og í þeirra huga togast þess vegna á annars vegar eignarréttur einstaklinga og hins vegar eignarréttur hins ópersónulega opinbera valds, sem sé einkaeignarréttur ríkisins annars vegar og einkaeignarréttur einstaklinganna hins vegar. Það er kjarninn í hugmyndafræði þeirra að reyna að færa þennan eignarrétt yfir til einstaklinga eins og hægt er. Þeir horfa á heiminn með þessum augum, a.m.k. að því leyti sem snertir þau mál sem við erum að tala um hér og ýmis fleiri. Ef þeir fengjust til þess að greina á milli annars vegar þjóðareignar, almannaeignar, og síðan einkaeignarréttarins í klassísku formi væri mjög mikið unnið. Þá gætum við kannski komist áfram í þeim vandamálum sem við blasa, bæði með auðlind hafsins og þá auðlind sem hér er um að ræða.

Ég tek undir þetta og bæti þessu við málflutning hv. þm. Jóhanns Ársælssonar.

Ef við gerðum þetta væri ekkert því til fyrirstöðu að við legðumst síðan yfir það mál að tiltaka þjóðareign í stjórnarskrá okkar sem er engin uppáfinningasemi í okkur í Samfylkingunni eða stjórnarandstöðunni heldur staðreynd í ýmsum stjórnarskrám, þeim sem nýlegar eru, og einkum má finna slíkar stjórnarskrárgreinar í stjórnarskrám nýfrjálsu ríkjanna í Mið- og Austur-Evrópu sem höfðu úr ýmsu að velja.

Ég vil svo segja í tilefni af andsvarinu áðan að hér er um töluverðan lagabálk að ræða, nýframkominn. Við höfum verið að reyna að tileinka okkur hann og fara í gegnum hann. Hann hefur vakið spurningar og það er eðlilegt að menn vilji ræða ýmsa hluti. Þá er þeim ráðherra sem málið flytur skylt að hafa ekki aðeins vald yfir málinu, heldur líka vald á málinu og geta svarað þingmönnum hreinskilnislega og af fullum málefnalegum þrótti því sem þeir spyrja um.

Þegar spurt er hvert markmið frumvarpsins eigi að vera, hvort 1. gr. frumvarpsins, markmiðsgreinin, sé í samræmi við lýsingu hennar í athugasemdum í greinargerðinni er eðlilegt að ráðherrann svari því hreinskilnislega hvort honum finnst það eða ekki. Þegar spurt er hvort Orkustofnun eigi síðan að gæta þess að þessi markmið náist er eðlilegt að ráðherrann geri grein fyrir því hvort hann telji að svo eigi að vera eða ekki.

Ef umhverfistillit er inni í 1. gr., það sé markmið þessara laga og þar með markmiðið með þeim völdum sem falin eru Orkustofnun í frumvarpinu, er Orkustofnun með einhverjum hætti orðin umhverfisstofnun með litlu u-i, ný umhverfisstofnun. Þá verðum við auðvitað að byggja þá stofnun allt öðruvísi upp. Spurningin er auðvitað sú: Þurfum við fleiri slíkar? Erum við ekki með ágætar stofnanir á verksviði umhverfisráðuneytisins sem mætti tengja inn í lögin og fela eitthvað af þeim verkefnum sem Orkustofnun á hér alfarið að sjá um? Orkustofnun er nú ný stofnun, ekki satt? Orkustofnun hin gamla var klofin í tvennt þar sem annars vegar var fræðihlutinn og rannsóknarhlutinn — sem ég hygg að heiti núna ÍSOR eða eitthvað álíka — og hins vegar er stjórnsýsluhlutinn í Orkustofnun. Ég veit það ekki, ég hef ekki unnið þar og ekki kynnt mér það sérstaklega, en ég held að ekki séu margir vísindamenn eða fræðingar hjá Orkustofnun og þegar þeim er falið eitthvert hlutverk verður að gæta þess að ekki sé verið að fela þeim vísindalegt eða fræðilegt hlutverk sem þeir ráða ekki við.

Mér finnst skrýtið að Orkustofnun skuli falið að sjá um að gefa út leyfi og sjá um leit að auðlind. Leit að auðlind er svona skilgreind í 3. gr. frumvarpsins, 10. lið, með leyfi forseta:

„Yfirlitskönnun á svæði með aðferðum jarðvísinda og skyldra fræða, gerð yfirlitskorta og skýrslna sem lýsa umfangi auðlindar og legu, magni og helstu aðstæðum.“

Það er athyglisvert að eitt af því sem önnur stofnun, sem ég er sammála að sé rannsókna- og vísindastofnun og heitir Náttúrufræðistofnun Íslands, á að gera samkvæmt sínum lögum, 4. gr. e-lið, er „að leiðbeina um hóflega nýtingu náttúrulegra auðlinda“ — og þá er rétt að spyrja hver munurinn sé á náttúrulegum og jarðrænum auðlindum — „og aðstoða með rannsóknum við mat á verndargildi vistkerfa og náttúruminja og áhrifum mannvirkjagerðar og annarrar landnotkunar á náttúruna“.

Í c-lið stendur að Náttúrufræðistofnun eigi, með leyfi forseta, „að skrá kerfisbundið einstaka þætti íslenskrar náttúru og sjá um gerð og útgáfu korta, m.a. um jarðfræði og útbreiðslu tegunda“.

Ég sé ekki betur en að með þessu frumvarpi sé búið að blanda saman verksviði Orkustofnunar og Náttúrufræðistofnunar með þeim hætti að ekki verður annað séð en að allt fari í rugl og að Orkustofnun sé fyrst og fremst látin teygja sig yfir á svið Náttúrufræðistofnunar.

Ég vil svo taka undir það með hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur að umhverfistengingin í þessu frumvarpi er illsjáanleg. Hún kann að vera fyrir hendi en við fyrstu sýn, við fyrsta lestur okkar þingmanna, er hún illsjáanleg. Maður spyr hvernig þetta frumvarp samræmist lögum um mat á umhverfisáhrifum og skipulags- og byggingarlögum og nýja frumvarpinu sem lagt hefur verið fram um mat á umhverfisáhrifum.

Í viðauka við mat á umhverfisáhrifum er getið um t.d. rannsóknarholur, að þær séu að vísu ekki umhverfismatsskyldar en þær komi til greina í umhverfismat samkvæmt þeim skilyrðum sem nefnd eru í næsta viðauka. En það er t.d. ekki talað um umhverfisþátt á leitarstiginu. Þá kynnu menn að segja: Það er ekkert rask við leitarstigið. Ég var að lesa hvað það er, það er yfirlitskönnun á svæði o.s.frv., hvort sem það er Náttúrufræðistofnun eða Orkustofnun sem annast hana. Svo vill til að í frumvarpinu sjálfu er gert ráð fyrir því að um rask kunni að vera að ræða við leitina. Það er ekkert verið að fela það, maður þarf að vísu aðeins að leita en um það er klásúla í 35. gr. frumvarpsins sem vísað er til úr 6. gr., um málsmeðferð. Í 6. gr. stendur að ef fasteignareigandi vill bætur á grundvelli leitarleyfis Orkustofnunar fari það samkvæmt ákvæðum 35. gr. Af hverju skyldi fasteignareigandi vilja bætur? Jú, hann getur auðvitað viljað það vegna þess að það sé eyðilagt hjá honum hús eða eitthvað álíka. Hann getur líka viljað þær vegna þess að — það þarf ekki að eyðileggja hús mikið við leit að auðlindum — rask hafi orðið á svæðinu, á þessari eign hans.

Í 35. gr. stendur þetta beinlínis, með leyfi forseta:

„Nú veitir Orkustofnun öðrum en fasteignareiganda leyfi til leitar og rannsókna“ — ég legg áherslu á leitar og rannsókna, þarna er tiltekið leyfi — „á auðlind innan eignarlands, og getur landeigandi þá krafist bóta vegna tjóns sem hann verður sannanlega fyrir af þeim sökum“ — og nú vil ég aftur leggja áherslu — „vegna röskunar eða skemmda á landi og mannvirkjum.“

Það er eins og beinlínis sé gert ráð fyrir því í frumvarpinu sjálfu að um rask kunni að vera að ræða vegna leitarinnar. Ekki er samt gert ráð fyrir því að leitin fari í neins konar mat á umhverfisáhrifum eða sé háð neins konar leyfum eða umsögn þar til bærra aðila nema þá Orkustofnunar sem nýrrar umhverfisstofnunar með litlu u-i, umhverfisstofnunar iðnaðarráðuneytisins sem þá þarf ekki að leita til þess stjórnvalds, umhverfisráðherra og stofnunar hans, sem við héldum upphaflega að væri yfir þetta sett.

Það gerist svo líka í þessu frumvarpi að vatni er bætt við auðlindirnar sem lagabálkurinn fjallar um. Lögin sem þetta frumvarp á að leysa af hólmi heita Lög um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu en nú eru þær kallaðar jarðrænar auðlindir af einhverjum ástæðum sem eru fremur óglöggar, og vatni er bætt við. Það er ein helsta breytingin.

Þar með hefur iðnaðarráðuneytið, ef þetta verður að lögum, lagt undir sig vatnið í landinu, ekki bara það vatn sem nýta má til orkuframleiðslu eins og er í gömlu lögunum heldur líka grunnvatnið og vatn, hverju nafni sem það nefnist, grunnvatnið undir hverju landi sýnist mér á frumvarpinu, og spyr um það, eða er það bara grunnvatn þar sem það kemur upp? Hvernig á að skilja þennan eignarrétt sem nú er framlengdur yfir á grunnvatnið? Á að skilja hann þannig að hver maður eigi grunnvatn undir sinni jörð eða sinni lóð? Eigum við, íbúarnir á Laugavegi 49, grunnvatnið sem við kynnum að finna undir þeirri landareign okkar? Getum við þá af því að við eigum landið og ekki þarf leyfi til að leita á eigin landi sett upp bor á Laugavegi 49, borað niður í jörðina og leitað að grunnvatni? Gætum við ef við fyndum það fengið bara rannsóknar- og nýtingarleyfi hjá iðnaðarráðherranum ef hann er okkur velviljaður sem ég geri ráð fyrir að hann yrði og sett upp svona grunnvatnsfabrikku og selt grunnvatnið okkar? Hvað yrði þá um grunnvatnsréttindi íbúanna á Laugavegi 47, Laugavegi 51 og Laugavegi 49b?

Hér er auðvitað verið að teygja málið út í öfgar en það er ekki endilega eðlilegt að grunnvatn eigi að eiga heima í þessum lagabálki. Vatn er ekki bara til virkjananota, vatn er grunnauðlind, grundvallarauðlind í heiminum. Vatn varðar lífsþarfir manna, dýra og plantna og vatn er órjúfanlegur hluti náttúrunnar og það er ótrúlegt að vatnið í landinu skuli vera sett undir iðnaðarráðuneytið og kallað jarðræn auðlind án þess að nokkur grein sé gerð fyrir því hvar mörkin eru á milli leyfisveitinga á vegum iðnaðarráðuneytisins til að „nýta“ það og verndarskyldu umhverfisráðuneytisins.

Ég vil svo af því að ég á lítinn tíma eftir, þó taka nokkur mál og minnast á 31. gr. frumvarpsins um þagnarskylduna. Nú er hún að vísu nokkurn veginn samhljóða þeim lögum sem í gildi eru en það sem gerst hefur síðan er að ljóst er að Árósasamningurinn tekur hér gildi vegna hins góða Evrópusambands sem við þökkum fyrir að hafa tengst, a.m.k. ég og hæstv. iðnaðarráðherra, og þó að hæstv. ríkisstjórn Íslands hafi ekki treyst sér til að staðfesta samninginn boðar hann framfarir í þessum efnum því að hann gerir ráð fyrir að almenningur hafi veruleg áhrif á öll umhverfismál, og áhrif manna í lýðræðiskerfi, þarf ég varla að segja hæstv. iðnaðarráðherra, forseti góður, byggjast á því að menn hafi aðgang að upplýsingum. Þess vegna verður að rökstyðja mjög vel þegar upplýsingum er haldið leyndum. Það finnst mér ekki gert í 31. gr. Þegar menn hafa leitað á einhverju landsvæði þá eiga þær upplýsingar, þær sem ekki eru beinlínis viðskiptalegs eðlis, að standa öllum opnar og það verður að vera öllum almenningi ljóst hvað um er að vera og það á líka að vera keppinautunum ljóst, öðrum áhugamönnum og áhugafyrirtækjum og -aðilum hvað um er að vera á hverju svæði um sig. Ég geri því athugasemd við 31. gr. og fer fram á að hún verði sérstaklega skoðuð í iðnaðarnefnd, að ég ekki tali um þegar hún kemur til umhverfisnefndar eins og ég tel blasa við og ekki þurfa í raun og veru að hafa fleiri orð um.

Nefndin sem á að skipa, af því að þetta eiga nánast að vera bráðabirgðalög, kannski með bandstriki á milli, á að gera tvennt. Hún á annars vegar, sem eðlilegt er, að gera tillögu um með hvaða hætti valið verði milli umsókna um rannsóknar- og nýtingarleyfi. Það þarf að sjálfsögðu slíka nefnd og það þarf slíka vinnu og ég vona svo sannarlega að hún takist vel. En hún á ekki bara að gera þetta, forseti góður, þingheimur allur og aðrir þeir sem til mín heyra á landi og hafi úti, hún á líka, með leyfi forseta: að „marka framtíðarstefnu um nýtingu þeirra auðlinda sem lögin ná til“, sem eru allar auðlindir í landinu sem ekki eru lifandi, sem ekki eru plöntur eða dýr eða mannauður.

Hverjir eiga að gera þetta? Jú, þingflokkarnir fá náðarsamlegast að taka þátt í þessu en síðan eru það hverjir? Jú, það eru tveir fulltrúar frá iðnaðarráðherra, annar þeirra formaður nefndarinnar, og síðan þrír fulltrúar frá Samorku. Það er þrír fulltrúar frá Samorku og tveir fulltrúar iðnaðarráðherra sem eiga, auk þingmanna úr þingflokkunum eða fulltrúa þeirra, að marka framtíðarstefnu um nýtingu þeirra auðlinda sem lögin ná til.

Þetta er auðvitað algjörlega dæmalaust. Þetta hlýtur að vera einhver villa, prentvilla eða hugsanavilla á síðustu stigum frumvarpsins og ég bið hæstv. iðnaðarráðherra að staðfesta það með mér að um það sé að ræða því það er auðvitað ekki hægt að láta svona nefnd gera slíkt á nokkrum missirum, að marka framtíðarstefnu um nýtingu þeirra auðlinda sem lögin ná til, án miklu breiðari þátttöku og veigameira starfs en hér sýnist vera um að ræða.

Enn get ég tekið undir flest það hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir sagði um rammaáætlun og vatnsaflsflokkun Norðmanna sem við þurfum að ræða hér miklu betur og í umhverfisnefndinni. Það eru aðgerðir og áætlanir af þessu tagi sem eru í raun og veru forsenda þess að það starf takist sem nefndin á að fjalla um, þ.e. hið fyrra, umsóknir um rannsóknar- og nýtingarleyfi, og það á líka að vera kjarninn í þessari framtíðarstefnu um nýtingu auðlinda. Og án þess að það sé alveg klárt hvað út úr því starfi kemur er varla hægt að samþykkja þessi lög, jafnvel ekki til bráðabirgða.

Það kemur fram í frumvarpinu sjálfu að lögin, ef af verður, eiga að gilda í tvö ár. Ég segi fyrir mig að ég tel enn betra að bíða, ræða saman um grundvöll laganna og um ástandið við auðlindirnar og sóknina í þær og búa til nefndina, kannski án laga, og reyna að bjarga sér þangað til ráðherrann getur komið með eitthvað betra inn á þingið, hvort sem það verður núverandi hæstv. iðnaðarráðherra eða einhver annar sem e.t.v. (Forseti hringir.) hefur betri skilning á umhverfismálum og auðlindanýtingu en sá sem nú er.