132. löggjafarþing — 47. fundur,  20. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[13:47]
Hlusta

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var dálítið gott að fram skyldi koma að börnin með byssurnar voru þá væntanlega borgaryfirvöld.

Hv. þingmaður, eins og fleiri fulltrúar stjórnarliðsins á þingi, gleymdi eða vildi ekki koma því á framfæri að fram kom í efnahags- og viðskiptanefnd að þróun launa hjá borginni er u.þ.b. 8% lægri en þróun launa hjá ríkinu. Það kom ekki fram hjá hv. þingmanni, enda hefur maður orðið var við það hjá stjórnarliðinu í umræðunni að menn velja sér það sem þeir vilja setja fram og hentar hverju sinni. Það er ekkert annað sem endurspeglaðist í þessari ræðu frekar en hjá fyrri hv. ræðumönnum stjórnarliðsins í dag, að menn velja sér og segja það sem hentar án þess að greina á nokkurn hátt, á skriflegan hátt frá því sem raunverulega átti sér stað í nefndinni. En ég virði hv. þingmanni það til vorkunnar að hann skuli ætíð stíga fram þegar þarf að verja vondar gjörðir ríkisstjórnarinnar. Hann er duglegur þingmaður.