133. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2006.

Landsvirkjun.

364. mál
[11:25]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti Við erum að fara að greiða hér atkvæði um kaupin á Landsvirkjun. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar og við mörg í Samfylkingunni að eignarhaldsvandi væri uppi í Landsvirkjun og það væri eðlilegt að hann yrði leystur. Til hans var stofnað með því að Reykjavíkurborg og Akureyri tóku þátt í þessu fyrirtæki áratugum saman og hér var kominn upp verulegur vandi á raforkumarkaði sem menn hafa verið að reyna að skapa hér samkeppnisumhverfi á. Þess vegna er mjög eðlilegt að af hálfu ríkisins hafi verið gengið í að leysa úr þessum eignarhaldsvanda. Reykjavíkurborg hefur líka sóst eftir því að á þessu máli yrði tekið enda rekur hún gríðarlega stórt fyrirtæki í samvinnu við aðra aðila á orkusviði. Það er þess vegna fagnaðarefni að mönnum skuli hafa tekist að leysa úr þessum eignarhaldsvanda með þessum kaupum. Þetta er auðvitað stærsta ríkisvæðingarátak þessarar ríkisstjórnar ef frá eru talin átökin í sambandi við Kárahnjúkavirkjun sem farið hefur fram á þessum árum sem nú eru að líða.

Í framhaldi af þessu skapast auðvitað þrýstingur á að menn taki á þeim vandamálum sem uppi eru gagnvart nýtingu auðlinda og hvernig þjóðarauðlindum verður komið fyrir í framtíðinni. Það er verkefni sem menn þurfa að ráðast í af miklum krafti að leysa. Það má aldrei gerast að sú ríkisstjórn sem nú situr fái áfram tækifæri til þess að ganga einhvers konar einkavæðingarveg með það fyrirtæki sem hér er til umræðu og heitir Landsvirkjun. Auðlindirnar sem eru í höndum þessa fyrirtækis eru gríðarlega mikilvægar og það þarf að vera samstaða um að halda þeim í þjóðareign til framtíðar.

Við styðjum auðvitað það frumvarp sem hér liggur fyrir og vonumst sannarlega til þess að við fáum tækifæri til að hafa forustu um að taka á því máli sem uppi er í auðlindamálum á Íslandi.