137. löggjafarþing — 47. fundur,  24. júlí 2009.

munnleg skýrsla fjármálaráðherra um eigendastefnu ríkisins á fjármálafyrirtækjum.

[11:38]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Bhr):

Frú forseti. Endurreisn bankakerfisins er ærið verkefni og stjórnvöld eru ekki öfundsverð að vera í þeirri stöðu að þurfa að tjasla því saman. Það er bæði gott og skynsamlegt að ríkið marki sér skýra eigendastefnu. Meginmarkmið hennar eru göfug og líst mér að mestu leyti ágætlega á stefnuna sem slíka. Ég mundi hins vegar einnig vilja benda á nauðsyn þess þegar ríkið markar sér stefnu sem kröfuhafi því að þar á það einnig mikilla hagsmuna að gæta.

Það er Bankasýsla ríkisins, ný stofnun, sem á að fara með eignarhluta ríkisins og fylgja eigendastefnunni og ég hef töluverðar áhyggjur af henni. Ekki er gert ráð fyrir faglegri ráðningu í stjórn stofnunarinnar og það finnst mér afspyrnuvitlaust. Það er flott markmið að vilja halda bankakerfinu armslengd frá fjármálaráðherra en ég hef enga trú á að það geti orðið ef fjármálaráðherra á að skipa stjórn Bankasýslunnar sem svo ræður forstjóra. Það verður hægur vandi fyrir fjármálaráðherra, hver svo sem hann er á hverjum tíma, að koma jábræðrum og -systrum í þessar lykilstöður.

Frú forseti. Við vitum enn ekki hvernig hið nýja bankakerfi mun líta út. Staðan er allt önnur nú en í síðustu viku og hver veit hvernig hún verður að ári. Hlutverk Bankasýslunnar er í raun að miðstýra bankakerfinu. Ég er ekki hrifin af slíkri miðstýringu en gott og vel. Nú eru sérstakir tímar og kannski er slík miðstýring réttlætanleg í allt að fimm ár en stofnuninni er ætlað að starfa í þann tíma í mesta lagi.

Nú er sú staða komin upp að tveir bankanna verða e.t.v. í erlendri eigu en einn í fullri eigu ríkisins. Ríkið mun hins vegar eiga 10–12% í hinum bönkunum ef þetta gengur eftir. Ég get ekki séð hvernig ríkið getur unnið í gegnum Bankasýsluna að því undirmarkmiði eigendastefnunnar að tryggja samkeppni á fjármálamarkaði við þessar aðstæður. Gott væri að fá að vita hvernig ríkið hyggst snúa sig út úr þeirri klemmu.

Að öðru leyti líst mér ágætlega á eigendastefnuna sem slíka og fagna því sérstaklega að sjá að bankarnir eiga að gæta jafnræðis á milli viðskiptavina og fylgja skilgreindum ferlum og verklagi, m.a. við úrlausn á skuldavanda fólks og fyrirtækja í rekstrarerfiðleikum því að á það mun reyna.

Fjórða undirmarkmið eigendastefnunnar snýr að því að tryggja að eignaraðild í fjármálafyrirtækjum verði dreifð. Í ljósi sögunnar finnst mér mikilvægt að tryggja að bankarnir komist ekki aftur í eigu þeirra manna sem settu allt á hliðina.

Svo er það þetta með launin. Það er hluti af stærri umræðu að enginn megi hafa hærri laun en forsætisráðherra og það eru örugglega margir sem vona að hún ákveði ekki að lækka launin sín og þar með allra hinna líka. Ég vil benda á að þetta geti verið hættulegt og það er ekki víst að við fáum hæfustu stjórnendurna ef þetta verður raunin.

Að öðru leyti líst mér ágætlega á stefnuna en mér finnst að hún mætti kannski vera ítarlegri. Ég vil taka undir sumt af því sem hv. þm. Eygló Harðardóttir sagði um að hún mætti vera ítarlegri og að siðferðissjónarmið og umhverfissjónarmið ætti að taka til skoðunar. Mér þætti líka æskilegt að stefnan yrði tekin til endurskoðunar reglulega vegna þess að eins og við sjáum eru breytingar á þessu sviði svo örar og því þurfum við að gera ráð fyrir ákveðnum sveigjanleika.