137. löggjafarþing — 47. fundur,  24. júlí 2009.

munnleg skýrsla fjármálaráðherra um eigendastefnu ríkisins á fjármálafyrirtækjum.

[11:59]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Eftir bankahrunið situr ríkið eftir með stóru bankana og eignarhluti í fyrirtækjunum á Íslandi í fanginu. Meginþróun um allan hinn vestræna heim hefur verið í öfuga átt við þetta, þ.e. að færa sem mest af fyrirtækjum og þjónustu í velferðarríkjunum í hendur markaðarins eða einkaaðila. Þó vil ég undanskilja grunnstoðir eins og heilbrigðisþjónustuna, félagsþjónustu og menntakerfið. Þar hefur ríkisreksturinn verið svarið að mestu leyti en hinar pólitísku átakalínur hafa einmitt snúist um hversu langt við eigum við að ganga í einkavæðingu og að færa verkefni til markaðarins almennt og hvað á að vera eftir hjá ríkinu. Þarna hefur tekist á grunnhugmyndafræðin bæði hjá vinstri og hægri mönnum.

Nú situr ríkið allt í einu uppi með mörg fyrirtæki í fanginu og hvernig snúum við okkur í því? Jú, það þarf að setja skýrar reglur um hvernig eigi að halda á stjórnun og eignarhaldinu. Það verður að vera sanngirni og réttlæti í öllum ákvörðunum. Það þarf að halda pólitíkinni og viðskiptunum aðskildum. Það er flókið og það er viðkvæmt einmitt núna þegar ríkið á fyrirtækin að meira eða minna leyti. Í augnablikinu er íslenskt samfélag mjög viðkvæmt og við höfum ekki efni á að gera nein mistök í þessu sambandi. Allur grunur um óeðlilegar ákvarðanir, teknar á óljósum forsendum mun virka sem olía á eld á næstu missirum. Þess vegna er svo mikilvægt að eigendastefna ríkisins verði skýr. Við höfum beðið mjög lengi eftir henni og núna fáum við að sjá fyrstu viðleitni í þá átt að setja slíka stefnu fram. Ég hélt reyndar að hún yrði nákvæmari og fyllri en ég tek undir með þeim sem hafa sagt í þessum ræðustól í umræðunni að mjór er mikils vísir.

Framsóknarmenn hafa ályktað um þessi mál. Ég ætla ekki að lesa þær ályktanir hér, virðulegur forseti, en þær ganga út á það að jafnræði eigi að gilda og ekki eigi að búa svo um hnútana að ríkið trufli samkeppni á markaði. Þetta er viðkvæmt verkefni sem þessi eigendastefna á einmitt að taka á.

Þegar lesið er í gegnum eigendastefnuna sem við erum að fjalla um hér sést að verið er að reyna að taka á þessum málum. Ég vil fagna því að það á að koma hinni opinberu umsýslu með hlutafélögum og félögum í eigu ríkisins á einn stað, inn í eitt ráðuneyti, þ.e. til fjármálaráðuneytisins. Hingað til hefur smákóngahugsunin verið allt of ríkjandi í þessu sambandi þar sem við höfum verið með eignarhaldið á höndum hinna og þessa ráðherra.

Það kemur fram á bls. 4, virðulegur forseti, að varðandi það að koma öllu eignarhaldinu fyrir á hendi eins ráðuneytis, fjármálaráðuneytisins, eigi að draga skýra línu milli hlutverks ríkisins sem eiganda og annarra hlutverka þess. Það kemur líka þar fram, virðulegur forseti, að eftirlitshlutverkið eigi að heyra undir viðskiptaráðuneytið. Á mannamáli þýðir þetta, virðulegur forseti, að hæstv. viðskiptaráðherra Gylfi Magnússon á að hafa eftirlit með hæstv. fjármálaráðherra Steingrími J. Sigfússyni. Þetta virkar svolítið skrýtið en eitthvert skipulag verðum við að hafa á þessu systemi hér, virðulegur forseti, og ég tel að þetta sé alla vega skref í rétta átt miðað við þá stöðu sem við erum að upplifa núna.

Ég vil, virðulegur forseti, segja hér að lokum að ég vil gefa þessari stefnu líf. Þetta er upphaf að því að móta hér dýpri eigendastefnu og ég vil hvetja hæstv. fjármálaráðherra Steingrím J. Sigfússon áfram, ég tel að hæstv. ráðherra sé á réttri braut með því að leggja þessa eigendastefnu fyrir þingið og fagna því sem fram kom að hæstv. ráðherra er opinn fyrir því að viðskiptanefnd taki eigendastefnuna til skoðunar og það verði hlustað á góðar ábendingar, komi þær frá viðskiptanefnd.