138. löggjafarþing — 47. fundur,  16. des. 2009.

námslán fyrir skólagjöldum í erlendum háskólum.

224. mál
[15:17]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé óþarfi að bíða mjög spenntur eftir svörum. Það liggur fyrir að útlán Lánasjóðs íslenskra námsmanna hafa aukist verulega á liðnum árum, annars vegar vegna mikillar fjölgunar lánþega og hins vegar vegna aukningar á skólagjaldalánum. Aukningin hefur raunar verið hvað mest í skólagjaldalánum innan lands eins og kom fram í svari mínu við fyrirspurn hv. þingmanns fyrir einhverjum vikum.

Framlag ríkissjóðs til Lánasjóðs íslenskra námsmanna er reiknað 51% af útlánum í samræmi við mat Ríkisendurskoðunar auk framlags til að standa undir vaxtastyrk til námsmanna og rekstri skrifstofu sjóðsins. Því má segja að ríkissjóður greiði um 51% af hverri krónu sem lánuð er. Megináhersla mín hefur verið að reyna að hækka grunnframfærsluna. Það er auðvitað erfitt á tímum sem þessum en við náðum þó fram sparnaði. Við áætlum að í hinu félagslega kerfi náist fram 20% hækkun á grunnframfærslunni fyrir þennan vetur sem ég held að hafi skipt gríðarlegu máli, bæði fyrir námsmenn innan lands og erlendis enda lánin gengistryggð. Það má segja að lánin hafi þar með komist á par t.d. miðað við lánsstyrki annars staðar á Norðurlöndum u.þ.b. út frá þessari gengistryggingu.

Það breytir því hins vegar ekki að sjóðurinn þarf auðvitað að mæta aðhaldi eins og aðrar stofnanir og í umfjöllun um fjárframlög til Lánasjóðs íslenskra námsmanna í fjárlagafrumvarpinu 2010 er rakið að lán vegna skólagjalda verði endurskoðuð til lækkunar. Ég tel ljóst að við þá endurskoðun verði ekki komist hjá því að endurmeta öll útlánin, bæði til framfærslu og skólagjalda, með ákveðna forgangsröðun í huga. Skólagjaldalán eru veitt bæði á háskóla- og framhaldsskólastigi innan lands frá lánasjóðnum og vegna náms á háskólastigi erlendis. Ekki er gert ráð fyrir að endurskoðun á skólagjaldalánum beinist sérstaklega að námi erlendis umfram annað enda lúta þau almennum jafnræðisreglum.

Í núgildandi úthlutunarreglum segir, eins og hv. þingmaður kom að áðan, að á skólaárinu 2010–2011 verði eiginfjármögnun lánþega allt að 30% af lánshæfum skólagjöldum en þó má segja að þarna sé vakin athygli á að svo kunni að fara. Hér er um að ræða tilkynningu og það liggur í raun og veru ekki fyrir hvernig sparnaði verður náð. Aðrar hugmyndir sem hafa verið ræddar hafa t.d. verið að þakið á fjárhæðinni sem er lánuð út verði lækkað en einnig hafa verið nefndar aðrar hugmyndir um eigin áhættu, að hún kynni að verða 30% eða 10%. Hins vegar mun stjórn sjóðsins leggja mikla áherslu á að vinna úthlutunarreglurnar hratt að þessu sinni. Þær ættu því að liggja fyrir fyrr en hv. þingmaður nefndi, ekki í maí eða júní heldur vonandi um miðja vorönnina. Ef við lítum á hvernig staðan er núna þá er eigin fjármögnun lánþega um þessar mundir 45 þús. kr., eða sem svarar innritunargjaldi í ríkisháskóla, og nemur í raun 30% í þeim tilfellum þar sem skólagjaldalán eru 150 þús. kr. Eigin áhætta er því nokkur. Í skoðun er hvort það eigi að auka þessa eigin áhættu eða lækka þakið á láninu. Það munar um þetta því við sjáum að skólagjaldalán innan lands eru um það bil milljarður og skólagjaldalán utan lands eru annar milljarður þannig að þarna er auðvitað um stórar fjárhæðir að tefla.

Ég bind vonir við að helstu áherslur við úthlutunarreglurnar ættu að liggja fyrir ekki of seint upp úr áramótum þannig að staðan ætti að skýrast fyrir námsmenn. Hins vegar var ástæða þess að þetta var sett inn í úthlutunarreglur núna í raun og veru að vara fólk við því að eitthvað kynni að vera í farvatninu til að þetta yrði ekki of seint fram komið. Við höfum auðvitað orðið vör við áhyggjur SÍNE-fólks en líka nemenda innan lands sem stunda skólagjaldanám þannig að ég tel mjög mikilvægt að þetta komist á hreint sem fyrst upp úr áramótum.