138. löggjafarþing — 47. fundur,  16. des. 2009.

listnám í grunn- og framhaldsskólum.

236. mál
[15:43]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög áhugaverð athugasemd hjá hv. þingmanni. Ég fór á jólatónleika Karlakórs Reykjavíkur á sunnudagskvöldið og hef sjaldan séð jafnmarga glaða karlmenn á einum stað saman komna, sjaldan segi ég, og það minnir mig á að söngurinn getur gefið manni mikið og sköpun almennt. Ég held að við þurfum að horfa á þetta út frá tveimur hliðum, þ.e. annars vegar hvernig við getum stuðlað áfram að öflugri listgreinakennslu og hins vegar hvernig við getum fært skapandi starf inn í aðrar greinar í meiri mæli og nýtt listina til að efla íslenskukennslu, stærðfræðikennslu eða sögukennslu, hvernig við sjáum mannkynssöguna endurspeglast í myndlistinni, hvernig við getum nýtt leiklistina í íslenskukennslu og svo mætti lengi telja.

Ég held að mjög mikilvægt sé að við byggjum á því sem kemur fram í úttektinni. Í námskrárvinnunni sem nú stendur yfir, ekki bara fyrir listnám heldur hinni almennu aðalnámskrá, hef ég lagt áherslu á fimm grunnþætti. Skapandi skólastarf er einn þeirra því að ég held að við getum nýtt sköpunarkraftinn í nemendum á hvaða aldri sem þeir eru til að auka þeirra eigin lífsfyllingu og líka til að stuðla að betri árangri í öllum almennum námsgreinum.

Ég legg því mikla áherslu á að við sjáum þess stað, bæði í námskrá og á öðrum stöðum í skólakerfinu, svo sem kennaranámi, að sjá aukna áherslu á skapandi skólastarf. Ég er sammála hv. þingmanni um að þetta hefur vafalaust lýðheilsufræðileg áhrif líka að fólk taki sem mestan þátt í skapandi starfi hvort sem það er söngur með karlakór eða eitthvað annað.