138. löggjafarþing — 47. fundur,  16. des. 2009.

fundargerðir af fundum um Icesave-málið.

269. mál
[16:07]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það fer væntanlega mjög eftir eðli máls hvaða þörf er fyrir og hvaða ástæða er til að menn skrái slíka hluti hjá sér. Í því tilviki þegar menn voru í hinu kostnaðarsama framboði Íslands til setu í öryggisráðinu reyndu menn að kanna stuðninginn og vildu hafa sitt eigið bókhald um hann. Það þekki ég vel vegna þess að ég sá það sem nefndarmaður í utanríkismálanefnd á sínum tíma. Menn merktu í kladdann og skráðu niður loforðin sem halda svo misvel eins og kunnugt er. Ég get þó fullyrt sömuleiðis að með þessar fundargerðir eða minnisblöð og þetta bókhald var farið eins og mannsmorð, að sjálfsögðu vegna þess að það eru trúnaðargögn inni í viðkomandi ráðuneyti sem menn sleppa ekki frá sér. Slíkt gæti haft alvarleg áhrif í samskiptum ríkja ef það læki út og það gildir um mjög margt af þessu.

Minnisblaðið góða sem hv. þingmaður vitnar til og þingmenn hafa aðgang að er þessu marki brennt. Það var einhliða okkur til upplýsingar og minnis sem þar er tekið niður af þessum fundum til að geta gert þeim sem heima sátu grein fyrir því. Það væri ekki heppilegt ef slíkt yrði gert opinbert því menn gætu þá mótmælt því að upplifun gagnaðilanna af fundinum hefði kannski verið eitthvað öðruvísi og menn bæru á móti því að þetta hefði verið sagt eða hugsað nákvæmlega svona. Þetta er m.a. vandinn í eðli þessara samskipta og tengist því sem ég var að segja, það er ekki svo einfalt að hugsa þetta sem raunverulega fundargerð vegna þess að það verður hún auðvitað ekki nema hún sé staðfest af báðum aðilum og viðurkennd og meðhöndluð sem slík. Ef svo væri gæti hún auðvitað verið opin til birtingar en þegar um er að ræða eitthvað sem skráð er niður einhliða öðrum megin borðsins hlýtur það eðli málsins samkvæmt að fara fram í talsverðum trúnaði. Þessi samskipti voru kynningarfundir í Haag og síðan í London. Eftir það tók við tímabil þar sem menn þreifuðu fyrir sér með óformlegum hætti, með símtölum og tölvupóstum, og þegar nær (Forseti hringir.) dró lokum með fundum og afurðin liggur fyrir í samningsniðurstöðu.