139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

framtíð íslensks háskólasamfélags.

[13:16]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ofuráhersla hefur verið lögð á samkeppni í háskólasamfélaginu, samkeppni milli stofnana og milli einstaklinga. Slík áhersla væri góð ef háskólar hefðu jafnan aðgang að rannsóknafjármagni og raunverulegt frelsi til að ákveða hvers konar rannsóknir og nám þeir legðu áherslu á. Framlag ríkissjóðs til rannsókna í svokölluðum einkareknum háskólum hefur verið lægra en til ríkisháskólanna. Einkareknir háskólar hafa því þurft að leggja á skólagjöld til að geta boðið kennurum sínum sömu kjör og almennt eru í boði. Samkeppnisstaða þeirra gagnvart nemendum hefur því verið lakari og þeir neyðst til að bjóða betri þjónustu við nemendur sem í sumum tilvikum hefur komið niður á gæðum háskólastarfsins.

Frú forseti. Í úthlutunarnefndum samkeppnissjóða sitja í meira mæli fulltrúar ríkisháskólanna og taka ákvarðanir um að úthluta takmörkuðu rannsóknafjármagni í rannsóknasvið sem stjórnvöld og atvinnulífið telja mikilvæg. Ef okkur á að takast að byggja upp háskólasamfélag sambærilegt við það sem best gerist í nágrannalöndunum þarf að láta af þessari ofuráherslu á samkeppni. Samkeppnishugsun kemur í veg fyrir að háskólastofnanir vinni saman og nái þannig fram hagræðingu í rekstri og kemur jafnframt í veg fyrir að kennari njóti frelsis til að ákveða inntak kennslu og rannsókna. Áherslur sem leggja þarf í framtíðaruppbyggingu háskólasamfélagsins eru akademískt frelsi, samstarf milli háskóla og kennara í háskólageiranum, gæði, ekki síst náms og rannsókna, og síðast en ekki síst fjölbreytni í námi og rannsóknum á háskólastiginu.

Frú forseti. Það er von mín að við ákvarðanatöku um hvort hér eigi (Forseti hringir.) að vera tveir eða fleiri háskólar verði þessar áherslur hafðar að leiðarljósi.