144. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[12:38]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Afnám vörugjaldanna er ánægjuefni og við fögnum því og greiðum því atkvæði í Bjartri framtíð. En á þessu eru tvær leiðinlegar hliðar, annars vegar sú að afnám vörugjalda er fjármagnað með hækkun skatta á matvæli, nauðsynjavöru. Við hefðum viljað sjá það öðruvísi. Og svo er verið að lækka þarna álögur á óhollustu, viðbættan sykur. Viðbættur sykur er einfaldlega heilsufarsvá og þetta er slæm lýðheilsustefna. Mér finnst að í framhaldi af þessu eigi menn að setjast niður og finna út, og ég sé að hæstv. heilbrigðisráðherra er íbygginn yfir þessum orðum mínum, hvernig skattstefna varðandi óhollustu, varðandi viðbættan sykur, getur sem best þjónað lýðheilsumarkmiðum. Þetta er alla vega í þveröfuga átt við (Forseti hringir.) viðurkennd og skynsamleg lýðheilsumarkmið. En grundvallaratriðið er gott, afnám vörugjalda.