144. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2014.

framhaldsskólar.

214. mál
[14:21]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Í samhengi við alla umræðuna sem við höfum átt í dag um tekjuöflun og útgjöld þá er hér verið að samþykkja, ef þingið veitir heimild, að taka gjald af nemendum til að greiða fyrir námsgögn. Slík heimild er ekki í lögum í dag. Okkur hefur ekki tekist að setja inn fjármagn samkvæmt 51. gr. laga um námsgögn þar sem kveðið er á um að í fjárlögum hvers árs skuli tilgreind sú fjárhæð sem veitt er til að mæta kostnaði nemenda vegna námsgagna. Það er ekki sett ein einasta króna í það, heldur á að fara af stað með rafræn gögn á kostnað nemenda eingöngu. Því leggst ég alfarið á móti þessu.

Það er gríðarlega mikilvægt að menn efli og styrki námsgagnaútgáfu og styrki rafræn námsgögn í skólum, en það á ekki að gera á kostnað nemenda eingöngu. Þess vegna leggst ég á móti þessu máli.